133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er yfirleitt stilltastur manna í þessum sölum og sá sem er hvað jafnlyndastur þegar gefur á skútu ríkisstjórnarinnar. Æsingurinn sem í honum var hérna áðan, frú forseti, endurspeglar kannski þá staðreynd að í síðustu könnunum síðustu þriggja mánaða hefur ríkisstjórnin verið skítfallin. (Gripið fram í: Er Samfylkingin í sókn?) [Hlátur í þingsal.]

Nú hefur það komið fram af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þeir hafa eindreginn vilja til þess að fá að ræða við stjórnarandstöðuna um viðhorf þeirra til tekjudreifingar landsmanna. Ég tel, frú forseti, að það eigi að verða við óskum þeirra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg sjálfsagt að stjórnarandstaðan skiptist á skoðunum við þá um þetta málefni.

Nú vill svo til að á morgun var fyrirhuguð utandagskrárumræða um tiltekið efni og af sérstökum ástæðum mun hún falla niður. Ég vil því óska sérstaklega eftir því fyrir hönd okkar í stjórnarandstöðunni að á morgun verði gefinn tími til þess að ræða hér utan dagskrár um þetta efni, tekjudreifingu Íslendinga eins og hún hefur þróast síðustu árin undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins. Ef Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki í þá umræðu strax á morgun þá vitum við hverjir það eru sem hér komu einungis til þess að standa á leiksviði og fara með lærðan texta. Og, frú forseti, stóðu sig það vel að líkast til gætu þeir unnið leiklistarverðlaun Íslands á næsta ári. (Gripið fram í: Edduna?)