leynisamningar með varnarsamningnum 1951.
Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að fá þessa umræðu um leyniviðauka varnarsamningsins inn á hið háa Alþingi. Þó verð ég að segja að svörin hafa a.m.k. hingað til í umræðunni verið frekar rýr í roðinu og þó að segja megi að þau hafi kannski komið frá hjartanu mættu þau vera efnismeiri.
Ég er ekki sammála þeim sem hér hafa sagt að það sé mjög erfitt að skilja hvað mönnum hafi gengið til árið 1951 með því að halda viðaukunum leyndum. Ég hygg að í ljósi aðstæðna þá og í ljósi þess hvað gerðist við Alþingishúsið 30. mars 1949 hafi menn séð það í hendi sér að ef slíkir viðaukar væru gerðir opinberir gæti ýmislegt gerst í samfélaginu, af því að eins og við vitum öll klauf þessi samningur þjóðina í herðar niður í afstöðu sinni til hans. Auðvitað vissu menn að þeir voru á hálum ís með því að semja með þeim hætti sem gert var. Það voru engir aukvisar sem stóðu að þessum samningum.
Fólk hefur komið hér upp og sagt að erfitt sé að skilja andrúmsloftið sem þá var og andrúmsloft kaldastríðsáranna og ég hef á þeim tæpu átta árum sem ég hef setið á hinu háa Alþingi oft orðið vör við að það eimir vel eftir af andrúmslofti kaldastríðsáranna í þessum sal og kannski meira hér en nokkurs staðar annars staðar í samfélaginu.
Herra forseti. Málið varðar efnislega aðallega afnotaréttinn og skilin á varnarsvæðunum, lögsöguna yfir varnarliðsmönnunum og hugsanlega yfirtöku á almennri flugstarfsemi.
Í 8. gr. eins viðaukans sem nú hefur verið gerður opinber segir, með leyfi forseta:
„Eigi er Bandaríkjunum skylt að afhenda Íslandi samningssvæðin við lok samnings þessa í sama ástandi sem þau voru í er Bandaríkin fengu þau til afnota. Þó skulu Bandaríkin við brottför af samningssvæðunum, eftir því sem við verður komið, flytja burtu úrgangsefni, eyða þeim eða á annan hátt að ganga frá þeim.“
Þetta varpar nýju ljósi á þær samningaviðræður sem hér fóru fram á síðasta ári og við vissum að væru yfirvofandi á undanförnum árum. Þetta varpar mjög skýru ljósi á þá stöðu sem mann þó grunaði að ríkisstjórn Íslands væri í í þessum samningaviðræðum en hún hefur náttúrlega verið enn verri en nokkur gat ímyndað sér. Þó datt þessu fólki aldrei í hug að deila þessari stöðu með öðrum hv. alþingismönnum í trúnaði í hv. utanríkismálanefnd eins og kannski hefði verið kostur í stöðunni. Þeim kom það greinilega aldrei til hugar.
Hvað varðar lögsöguna yfir varnarliðsmönnum og öðru slíku vitum við að svokallað hnífsstungumál vakti athygli almennings á því hvað væri í raun innifalið í þessum samningum og þá varð að aflétta leyndinni á þeim hluta. Hvað varðar almenna flugstarfsemi og hugsanlega yfirtöku á henni þá verð ég að segja eins og er, herra forseti, að mér er enn ekki ljóst hvar það mál er statt miðað við þá samninga sem gerðir voru í haust, svokallaða framhaldssamninga við varnarsamninginn. Mér er ekki enn ljóst hvar það er statt. Ég hef hins vegar lesið það í fréttum og haft eftir prófessor við Háskóla Íslands — þó að það falli ekki í góðan jarðveg á hinu háa Alþingi að vitna í prófessora við Háskóla Íslands ætla ég samt að gera það — að fyrir einhverjum árum hafi verið reynt að taka það upp að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Ég vil fá að vita hver reyndi það og hvers vegna og hvað það þýði í raun í þessu ferli.
Í raun réttri vakna fleiri spurningar í þessu máli en maður fær svör við í svona stuttri umræðu. Hins vegar vil ég að lokum þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa ákveðið að létta leyndinni af þessum viðaukum. Það er hins vegar algjörlega óskiljanlegt hvers vegna það var ekki gert miklu, miklu fyrr, og þegar menn stæra sig af því að vera ekki að pukrast þá vona ég, hæstv. forseti, að það eigi líka við um önnur málefni sem eru til umfjöllunar í ríkisstjórninni.