133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[17:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Einn stjórnmálaflokkur á þingi kemur í veg fyrir að upplýsingar berist til þjóðarinnar. Það er Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki má rannsaka símhleranir af óháðri rannsóknarnefnd og ekki má greina frá nýrri leynilegri varnaráætlun í samstarfi við bandarísk stjórnvöld. Þetta kemur ekkert tíðaranda kalda stríðsins við eins og hæstv. forsætisráðherra segir í umræðunni.

Í umræðum um málið kemur fram afar sérkennilegur skilningur hæstv. forsætisráðherra á orðinu „einhliða“. Hvernig geta orðin „einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar“ þýtt sameiginleg ákvörðun tveggja þjóða, en það er víst skilningur íslenskra stjórnvalda? Á góðri íslensku þýðir þetta að einfaldlega er verið að þvæla um málið og slá ryki í augu þjóðarinnar.

Það er augljóst hverjum kjósanda að Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist herfilega í varnarmálum þjóðarinnar. Það bætist á listann yfir önnur mistök ríkisstjórnarinnar svo sem í hagstjórninni, fátæktinni, öldrunarmálum og jafnvel í jafnréttismálunum hvað varðar kynbundinn launamun. Allt þetta skrifast á Sjálfstæðisflokkinn, herra forseti.