133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[17:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það verð ég að segja að það er beinlínis grátbroslegt að hlusta á hv. þm. Halldór Blöndal reyna að fjalla um þessi mál, svo alvarleg sem þau eru og varða lög og stjórnarskrá landsins, með þeim hætti sem hann gerði áðan. Hann lagði til að mynda að jöfnu þessa leynisamninga og þennan gjörning og samning um byggingu vatnsbóls á Suðurnesjum, sem var gerður fyrir opnum tjöldum milli sveitarfélaga á Suðurnesjum, hersins og með aðild Varnarmálaskrifstofunnar, fjallað um í fjölmiðlum og aldrei var neitt leyndarmál. Sá samningur kom aldrei fyrir ríkisstjórn. Það veit hv. þm. Halldór Blöndal og það er ekki merkilegur málflutningur að reyna að gengisfella þann sem hér stendur með slíkum aðferðum.

Í öðru lagi, varðandi það sem hæstv. forsætisráðherra segir, að lesa þurfi í leyndina sem þarna var viðhöfð í ljósi tíðarandans. Já, við skulum gera það. Er það þá ekki augljóst hverjum manni að ástæðan er pólitísk? Flokkarnir sem gengu á bak orða sinna frá 1949 um að hér skyldi aldrei sitja her á friðartímum þorðu ekki að bæta því við komu hersins að segja þjóðinni satt og rétt frá því hvernig var samið um réttindi hans. Svo langt var gengið í afsali á íslensku fullveldi og íslenskri lögsögu að sennilega hefði orðið uppreisn í landinu ef leynisamningarnir hefðu verið opinberir.

Hið alvarlega er einnig að þessi lögbrot, stjórnarskrárbrot, eru að því er best verður séð í fullu gildi enn í dag. Það sem þarf að fara í næst er að fá á hreint: Hvaða stöðu hafa viðaukarnir núna? (Gripið fram í.) Ætlar hæstv. utanríkisráðherra að flytja frumvarp um að afla þeim lagastoðar þótt seint sé eftir rúmlega hálfa öld eða er nóg að birta þá í Lögbirtingablaðinu? Er hægt að ýta lögum um flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og loftferðir til hliðar með samningi úti í bæ við erlendan ráðherra sem hefur enga lagastoð? Er hægt að ýta íslenskri refsilöggjöf, hlutverki lögreglu og ákæruvalds til hliðar (Forseti hringir.) með samningi af þessu tagi sem hefur enga lagastoð, brýtur gegn stjórnarskrá o.s.frv.?

Við þessum spurningum mínum komu því miður engin svör. Þeirra verður þá að afla (Forseti hringir.) með einhverjum öðrum aðferðum. En að öðru leyti, virðulegur forseti, þakka ég fyrir umræðuna.