133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[17:14]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Íslensk friðargæsla hefur verið starfrækt um alllangt skeið en upphaflega hófst þátttaka um 1950 með störfum íslenskra lögreglumanna á vegum Sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Í lok ársins 2000 skilaði starfshópur, sem ríkisstjórnin skipaði, tillögum um aukna þátttöku Íslands í friðargæslu á vegum alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Skýrslan varð grunnurinn að því að íslenska friðargæslan var sett á fót innan utanríkisráðuneytisins og hafist var handa um að auka þátttöku Íslands í alþjóðlegum friðargæsluverkefnum. Þessi þróun samræmist þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að Íslendingar taki í meira mæli á sig ábyrgð gagnvart umheiminum og alþjóðasamfélaginu. Síðastliðið ár störfuðu að jafnaði 26 Íslendingar erlendis á hverjum tíma að friðargæsluverkefnum. Verkefnin voru í Afganistan, Írak, Sri Lanka og á Balkanskaga.

Meginþorri friðargæsluliða starfar að endurreisnar- og uppbyggingarstarfi á átakasvæðum innan vébanda alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að, eins og Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins, auk norræna eftirlitsverkefnisins á Sri Lanka. Síðastliðinn áratug hafa á annað hundrað Íslendinga starfað að friðargæslu erlendis við fjölbreytt störf. Þetta eru sérfræðingar úr ólíkum hópum og starfsstéttum, svo sem lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar, verkfræðingar, fjölmiðlafólk, flugumferðarstjórar og slökkviliðsmenn, svo örfáar stéttir séu nefndar.

Hæstv. forseti. Markmiðið með lagafrumvarpi þessu er að renna styrkari stoðum undir þátttöku Íslands í friðargæslu á alþjóðavettvangi og kveða skýrt á í lögum um ýmis atriði sem til þeirrar starfsemi heyra, m.a. réttarstöðu friðargæsluliða, ábyrgð þeirra, réttindi og skyldur. Rétt er að vekja athygli á því að frá umboðsmanni Alþingis hafa borist ábendingar um að rétt sé að setja sérstök lög um þessa starfsemi og frumvarp um sama efni var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Við gerð frumvarpsins var m.a. höfð til hliðsjónar löggjöf um friðargæslu í öðrum norrænum ríkjum, en þar sem löggjöf um friðargæslu annars staðar á Norðurlöndum tekur almennt mið af því að þar er starfræktur her eiga sérsjónarmið við um margt varðandi íslenska friðargæslu.

Í haust kynnti ég í hv. utanríkismálanefnd breytingar á stefnumörkun og verkefnavali í íslensku friðargæslunni, m.a. með það að leiðarljósi að nýta betur sérþekkingu og hæfni íslenskra friðargæsluliða í verkefnum sem snúa að borgaralegum störfum og auka möguleika á áhrifum og þátttöku kvenna á þeim mikilvæga starfsvettvangi. Það er í samræmi við stefnu okkar og áherslur innan Sameinuðu þjóðanna. Í tengslum við þessar áherslur má einnig nefna að innan utanríkisráðuneytisins er nú unnið að aðgerðaáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325/2000 sem varðar konur, stríð og frið. Ég hef lagt á það áherslu í tengslum við þessa stefnumörkun að einnig verði aukið verulega upplýsingastreymi og samráð við utanríkismálanefnd um ný verkefni sem friðargæslan tekur sér fyrir hendur og meiri háttar breytingar sem gerðar eru á þeim verkefnum sem eru í gangi hverju sinni. Ég tel að vel hafi tekist til í haust að hafa slíkt samráð og í frumvarpinu nú er sérstaklega vísað til slíks samráðs.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.