133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[17:19]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað löngu tímabært að frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu komi fyrir hið háa Alþingi og verði lögfest. Nú hefur íslensk friðargæsla starfað í u.þ.b. tólf ár með einhverjum hætti þó að hún hafi ekki verið formlega stofnuð fyrr en 2001 og kannski svolítið dæmigert fyrir vinnubrögð okkar Íslendinga að lagasetningin kemur síðust í hinu langa ferli við að koma á friðargæslu sem starfar erlendis á okkar vegum.

Mig langar við 1. umr. til að benda á nokkur atriði í frumvarpinu sem hafa breyst frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi. Ég tek eftir því, forseti, að í 2. gr. frumvarpsins er ekki lengur kveðið á með sama hætti um notkun einkennisbúninga og tignargráða.

Það segir, með leyfi forseta, í því frumvarpi sem nú liggur fyrir:

„Íslenskir friðargæsluliðar skulu bera einkennisklæðnað þar sem við á, með hliðsjón af skipulagi og eðli þess verkefnis sem sinnt er. Jafnframt skal utanríkisráðuneytið ákveða þeim tignargráðu innan skipulags viðkomandi alþjóðastofnunar þegar þörf krefur.“

Hér er um þó nokkra breytingu að ræða.

Í fyrra frumvarpi sem var á dagskrá á síðasta þingi sagði, með leyfi forseta:

„Íslenskir friðargæsluliðar skulu klæðast einkennisbúningum og bera tignargráður ef skipulag viðkomandi alþjóðastofnana krefst þess.“

Ég tel a.m.k. í fljótu bragði að um sé að ræða breytingu til bóta. Ég velti því þó fyrir mér, forseti, hvað valdi því að enn þurfi að tala um tignargráður. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra í raun sagt mjög skýrum orðum að hún vilji færa friðargæslustörfin inn á þau svið sem t.d. ekki krefjist vopnaburðar og færa þau frekar inn á þau svið sem styðjast ekki við vopnaburð. Ég er ráðherranum algjörlega sammála um þá breytingu og við í Samfylkingunni höfum kallað eftir henni margoft á undanförnum árum og þess vegna spyr ég mig hvers vegna hæstv. ráðherra noti ekki tækifærið og stígi skrefið til fulls og leggi til að þau friðargæsluverkefni sem Íslendingar taki þátt í í framtíðinni verði þess eðlis að ekki þurfi að nota vopn við þau störf. Þurfa ljósmæður að bera vopn? vil ég spyrja. Eigum við að halda áfram á þeirri braut, forseti, ellegar bara stíga af henni og setja kúrsinn á verkefni sem við kunnum og við ráðum við?

Í 7. gr. frumvarpsins er rætt um þagmælsku eða trúnað. Henni hefur einnig verið breytt frá því frumvarpi sem við sáum í fyrra. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað valdi breytingunum, hvað liggi þar að baki, því hér virðist vera um nokkra efnislega breytingu að ræða.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hér segir að íslenskir friðargæsluliðar skuli gangast undir siðareglur, og það er auðvitað mjög þarft, þær siðareglur hafa víst verið í bígerð ansi lengi, en liggja þær fyrir? Ef svo er, væri þá ekki rétt að hafa þær a.m.k. sem viðauka með frumvarpinu þannig að þær liggi fyrir í skjölum Alþingis?

Annað í fljótu bragði, forseti, hnýt ég ekki um í fyrstu yfirferð — jú, eitt í viðbót. 5. gr. varðar íslenska refsilögsögu yfir íslenskum friðargæsluliðum. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta ákvæði, eins og það er í frumvarpinu, sé í samræmi við Alþjóðasakamáladómstólinn eða þær reglur sem þar eru settar og við erum aðilar að og hvort þetta séu þá sömu ákvæði og sömu reglur og eiga við um hermenn sem taka þátt í friðargæslustörfum fyrir önnur ríki.

Þetta eru spurningar mínar, forseti, við 1. umr. málsins. Við munum að sjálfsögðu fara mjög vandlega yfir það í utanríkismálanefnd, leita eftir umsögnum og annað slíkt, en ég mæli því ekki mót að auðvitað er full þörf á að setja lög um starfsemi íslensku friðargæslunnar nú sex eða sjö árum eftir að hún var stofnuð formlega.