133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[18:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög jákvæð að mínu mati. Eðlilega hafa ýmsar spurningar komið upp. Við setjum lög í fyrsta skipti um íslenska friðargæslu og þarf að vanda til verksins. Ég treysti hv. utanríkismálanefnd ákaflega vel til þess að halda vel á því máli og lýsi ánægju með það að mér heyrist vilji fyrir því að koma því svo fyrir að þetta frumvarp geti orðið að lögum á vorþingi.

Hv. þingmenn hafa velt fyrir sér ýmsum atriðum, eins og skiljanlegt er. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að velta fyrir sér 1. gr. og þeim liðum sem þar eru upp taldir, sem eru grundvallaratriði í þessum lögum og þessu frumvarpi. Hann vildi gjarnan sjá nýjan lið þar inni sem fjallaði sérstaklega um friðargæsluliða sem færu til fyrirbyggjandi aðgerða. Auðvitað er hægt að velta því fyrir sér í nefndinni hvort það sé nægilega vel tekið á því máli en að mínu mati tekur c-liður allvel á því sem hann fór yfir, en ég vil líka taka það fram að það er kannski ekki alltaf einfalt að koma því þannig fyrir að það sé heimilað í viðkomandi landi þar sem ríkir ófriður eða ófriður er í uppsiglingu að fá heimild til þess að senda þangað friðargæsluliða. Þetta er því áreiðanlega ekki einfalt sem hann er sérstaklega að velta fyrir sér en engu að síður full ástæða til þess að fjalla um það sérstaklega í nefndinni.

Af því að það er búið að tala mikið um þetta, borgaraleg starfsemi og ekki borgaraleg starfsemi, þá erum við náttúrlega fyrst og fremst að tala um borgaralega starfsemi og borgaraleg verkefni. Áherslurnar eru á slík verkefni en í einhverjum tilfellum, þótt um borgaraleg verkefni sé að ræða, þá eru þau innan hernaðarlegs kerfis. Það kemur til af því að við störfum með alþjóðastofnunum að þessum málum og gætum engan veginn staðið í því ein. Það held ég að allir sjái. Við erum hluti af stærra verkefni, stærri hópi sem starfar á svæðum þar sem uppbygging á sér stað. Við tökum þátt í uppbyggingarstarfsemi, að reyna að byggja upp þjóðfélög sem hafa lent í hörmungum.

Spurt var um siðareglur. Þær eru í vinnslu og full ástæða til þess að halda utanríkismálanefnd upplýstri um gang mála hvað það varðar. Í raun þótt hv. þingmenn hafi talað um að við höfum í rauninni ekki starfað samkvæmt lögum fram að þessu þá hafa starfsmannalögin gilt. En eins og umboðsmaður benti á þarf að skýra miklu nánar þau ákvæði sem varða friðargæsluliðana. Það leggjum við okkur fram um að gera í þessu frumvarpi. Þar mætti nefna þagnarskylduna og meiri samræmingu við lög um opinbera starfsmenn.

Mig langar sérstaklega til að nefna mál sem er viðkvæmt. Það varðar vopn og búninga. Innan alþjóðlegs liðs getur verið þörf á að klæðast einkennisbúningum. Það má sem dæmi nefna að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar og bráðalið sem starfar með þeim í Líbanon klæðast búningum Landhelgisgæslunnar þar. Hjúkrunarfræðingar sem störfuðu í Kósóvó á sínum tíma klæddust búningum þegar þeir störfuðu með breskum sveitum þar. Friðargæsluliðar á Sri Lanka eiga að vera í skyrtum merktum SLMM, Sri Lanka Monitoring Mission, og aka um á samsvarandi merktum bílum. Starfsmenn sem sjá um rekstrarmál á Kabúl-flugvelli, m.a. um að halda opnum flugbrautum í snjóþyngslum, vinna að skrifstofustörfum o.fl., gegna þar stöðum innan ákveðins kerfis, alþjóðakerfis, ISAF, sem fjöldi þjóða tekur þátt í. Þeim ber að klæðast einkennisbúningum og hafa óhlaðna skammbyssu á sér öllum stundum.

Þetta eru einfaldlega alþjóðlegar öryggisreglur sem við stöndum frammi fyrir. Ég segi við sjálfa mig að mér finnst það mikilvægt það sem við höfum getað lagt til málanna í sambandi við flugvallastjórn. Nú er rætt um að Íslendingar verði í forustu fyrir yfirfærslu á flugvellinum í Kabúl. Ég tel það svo mikilvægt að við eigum ekki að hrökkva frá. Það er mín skoðun.

Mig langar líka að koma inn á tignargráðurnar. En innan allra kerfa sem kalla á að boðvald sé skýrt eru einhvers konar tignargráður. Dæmi um þetta eru innan lögreglu, stjórnkerfisins og innan fyrirtækja. Innan Atlantshafsbandalagsins eru t.d. notaðar tignargráður sem tilheyra hernaði. Til að friðargæsluliðar geti gegnt þeim störfum innan kerfisins sem Ísland hefur tekið að sér að sinna verða þeir að hafa ákveðna tign til að geta haft umsjón með og stýrt öðrum starfsmönnum, verktökum og öðrum sem innan kerfisins vinna. Einu gildir hvort friðargæsluliðar starfa sem fjölmiðlafulltrúar, bráðatæknar eða flugumsjónarmenn, allt kallar þetta á ákveðna stöðu innan ákveðins kerfis. Við erum hluti af því kerfi og þurfum að undirgangast þær reglur, sem ég tel ekki stóra málið. Stóra málið hlýtur að vera að geta orðið að liði og hjálpað til þar sem ástand er eins erfitt og alvarlegt og það er í þeim löndum þar sem við störfum.

Varðandi réttarstöðu friðargæsluliða ef eitthvað ber út af þá höfum við því miður þá reynslu að friðargæsluliðar okkar hafa orðið fyrir árás og borið skaða af. Það er rík áhersla lögð á að tryggingar og utanumhald mála sé fast og tryggt og frumvarpið sem hérna liggur fyrir er hluti af því ferli. Með þessu frumvarpi verður meiri festa varðandi réttindi og skyldur og heimildir til að festa enn frekar í gildi reglur um réttarstöðu eins og þarf til.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi Kjúklingastræti. Er ekki rétt að tala um það mál þannig að þar höfum við lært af reynslunni? Við höfum breytt áherslum eftir að það gerðist og ég tel að það sé aðalatriðið. Auðvitað hefur þetta tímabil sem friðargæsluliðar okkar hafa starfað verið að mörgu leyti reynsluríkt og skipt máli í sambandi við frumvarpið sem hér liggur fyrir. Við höfum ekki lent í alvarlegum meiðslum með friðargæsluliða okkar en eins og kom fram hjá hv. þingmanni varð mikið og alvarlegt óhapp í Kjúklingastræti þegar okkar menn voru þar staddir. Að mínu mati verður því ekki haldið fram að við berum ábyrgð á því óhappi og því hræðilega slysi. Engu að síður voru okkar menn þar þegar sprenging varð.

Um greiningardeildina getum við rætt betur í hv. utanríkismálanefnd. Við erum ekki búin að móta þetta til framtíðar en ég held líka að greiningardeild sé ekki rétta orðið yfir þessa starfsemi. Ég held að hún sé mikilvæg. Hún er með þeim hætti að við höfum tækifæri til að meta sjálfstætt ástand mála, t.d. á þeim svæðum þar sem við förum með friðargæsluliða. Hvort kostnaðurinn, þegar hann hefur verið greindur frá lögreglustjóraembættinu, færist yfir á friðargæsluna tel ég raunar ekki að verði. En það er margt í mótun sem full ástæða er að fjalla um við nefndina þegar tækifæri gefst.

Ég held að önnur atriði séu fyrst og fremst þannig að þau megi ræða í nefndinni. Ég endurtek að ég er þakklát fyrir undirtektirnar og tel að við Íslendingar fikrum okkur áfram með mikilvægt mál. Við getum gert virkilega mikið gagn, það er ég algjörlega sannfærð um, í þessu borgaralega starfi sem við tökum þátt í og það er mikils metið þar sem við höfum tekið þátt. Íslendingar hafa staðið sig vel. Þeir eru þannig innrættir að vilja takast á við ögrandi verkefni. Þarna hefur kraftmikið fólk verið að störfum og yfirleitt allt sem ég þekki til er þar til fyrirmyndar.