133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[18:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef íslenskir friðargæsluliðar starfa innan alþjóðlegra stofnana eins og Sameinuðu þjóðanna eða Atlantshafsbandalagsins hljóta þær stofnanir að leggja sjálfstætt áhættumat á starf á viðkomandi svæðum. Ég reyndi að koma því að í ræðu minni áðan og það er þess vegna sem ég hef efasemdir um að það sé nauðsynlegt að halda úti sérstakri sjálfstæðri greiningardeild, eða hvað ráðherrann kýs að kalla það, hér á landi. Það er eitthvað sem við getum skoðað betur í utanríkismálanefnd. Ég læt alla vega hæstv. ráðherra njóta þess réttar að reyna að sannfæra mig í þeim efnum eða hennar starfsmenn.

Ég geri mér enga sérstaka rellu yfir því hvort íslenskir starfsmenn í þessum verkefnum erlendis séu í búningum eða beri titla. Ekki heldur hvort þeir hafi skotfæralausar byssur tómar í hulstri sér við síðu. En er það ekki svo að íslenskir friðargæsluliðar hafa borið það sem má kalla þungvopn? Þeir hafa verið með hríðskotabyssur og slíkan búnað.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort íslenskir menn séu enn þá undir slíkum vopnum. Mig langar sömuleiðis að spyrja hana hvort það sé svo að í þeim tilvikum séu til reglur um með hvaða hætti eigi að þjálfa þá. Í þriðja lagi: Hvar fá þeir þá þjálfun? Í fjórða lagi: Er hæstv. ráðherra fullkomlega sannfærð um að þeir sem fara til átakasvæða og þurfa að bera slík von séu nægilega þjálfaðir og hafi þá reynslu til að bera sem þarf til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem þar koma upp? Þetta vil ég síðan nota til þess að leggja enn frekar áherslu á það að við eigum að sinna (Forseti hringir.) annars konar störfum en svo að við þurfum að bera vopn, a.m.k. af slíku tagi.