133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[18:14]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þá starfsemi sem fram fór í svokallaðri greiningardeild eru upplýsingar fengnar að verulegu leyti frá Atlantshafsbandalaginu en ekki eingöngu þó. Ég nefni sem dæmi að í Sri Lanka, þegar við tókum ákvörðun um að halda áfram þar og fjölga í liði okkar, þá skipti máli að fá upplýsingar frá lögreglustjóraembættinu í Keflavík.

Hv. þingmaður spyr um þjálfun almennt en spurði fyrst um vopnaburð. Svokölluð jeppateymi hafa verið rekin með þeim hætti að friðargæsluliðar hafa borið riffla. En eins og hv. þingmaður veit erum við á leiðinni út með þá starfsemi og það held ég að hljóti nú að vera nokkuð táknrænt um þær áherslubreytingar sem eiga sér stað.

Ýmiss konar þjálfun getur átt sér stað áður en friðargæsluliðar taka til starfa. Á Sri Lanka eru þeir sendir á námskeið um sprengjur og hættur á þeim og fá ýmiss konar þjálfun. Það hefur einnig verið hluti af þjálfun friðargæsluliða að fá umfjöllun um kynjasjónarmið í friðargæslu sem ég hef lagt áherslu á.

Þegar friðargæsluliðar bera skotvopn, eins og raunin er að hluta til í Afganistan, þá hefur það undanfarin ár verið með þeim hætti að þjálfun hefur farið fram hjá norska hernum, bæði varðandi notkun og meðferð skotvopna. Það eru þó nokkuð öflug námskeið (Forseti hringir.) og öflug þjálfun.