133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

449. mál
[18:20]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2006, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/41 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipun 2003/41 fjallar um stofnanir fyrir starfstengdan lífeyri, þ.e. þær stofnanir eða aðila sem heimild hafa til að taka við iðgjöldum til öflunar lífeyris, ávaxta þau og greiða út lífeyri til rétthafa.

Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að hagkvæmum fjárfestingum og tryggri ávöxtun, tryggja réttindi sjóðfélaga og annarra rétthafa. Einnig að gera stofnunum af þessu tagi fært að bjóða þjónustu yfir landamæri innan ESB, stuðla að faglegri stjórnun, tryggja samkeppni, koma á gagnkvæmri viðurkenningu eftirlitsaðila innan ESB, skapa forsendur fyrir öflugri innri markaði fyrir lífeyrissparnað og gera SSL þannig betur kleift að nýta kosti innri markaðar ESB og evrunnar. Gengið er út frá því að forræði einstakra ríkja hvað varðar fyrirkomulag lífeyrismála sé ekki skert hvað varðar þann þátt sem lýtur að félags- og vinnuréttarlöggjöf. Það nær m.a. til skyldubundins framlags til lífeyrissjóða sem og mögulegrar skylduaðildar að sjóðum.

Í 2. gr. tilskipunarinnar er fjallað um undanþágur frá gildissviði hennar. Gegnumstreymissjóðir, þ.e. sjóðir sem eru ekki sjóðmyndaðir falla ekki undir tilskipunina. Lífeyrissjóðir sem falla undir reglugerð 1408/71 og 574/72 eru sömuleiðis undanþegnir tilskipuninni.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á fyrrgreindu reglugerðinni og falla íslenskir lífeyrissjóðir þar af leiðandi ekki undir ákvæði tilskipunarinnar. Slíkir sjóðir gætu þó verið stofnaðir hér á landi og má t.d. nefna að rætt er um mikilvægi tilskipunarinnar fyrir íslenskt efnahagslíf í skýrslu sem nefnd forsætisráðherra um alþjóðlega fjármálastarfsemi gaf út nýlega. Fjármálaráðuneytið vinnur að innleiðingu tilskipunarinnar og er stefnt að því að frumvarp þess efnis verði lagt fram nú á vorþingi.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.