133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel að það frumvarp sem við ræðum sé að langmestu leyti eðlilegar lagfæringar á lögum og nauðsynlegt sé að lagfæra það sem hér er lagt til til samræmis við framkvæmdina að mörgu leyti, eins og varðandi siglingavernd og annað slíkt er snýr að höfnum og hafnarsvæðum.

Einnig er lagt til að Siglingastofnun Íslands geri áhættumat vegna siglinga innan íslensku efnahagslögsögunnar, og siglingaverndaráætlun. Þetta er verk sem nauðsynlegt er að taka á og vænti ég þess, hæstv. forseti, að það takist vel. Það þarf að gera áhættumat vegna siglinga innan efnahagslögsögunnar. Við sjáum það alltaf betur og betur að ekki er vanþörf á að hugað sé að því og þarf sú umræða að vera mjög vönduð. Ekki er alveg sjálfgefið að í því felist aukið öryggi t.d. að færa skip í öllum tilvikum langt frá landi. Það geta verið þannig siglingaleiðir að það sé ekki. En af sjálfu leiðir og verkið þarf að vinna og hafa nefndir reyndar verið í gangi um það á undanförnum árum.

Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, að nauðsynlegt er að þau verk verði unnin skipulega og þeim hraðað. En margar ástæður kunna að vera fyrir því hvernig menn marka siglingaleiðir og áhættumat siglinga innan íslensku efnahagslögsögunnar.