133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem aðallega upp til að óska hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, formanni samgöngunefndar, til hamingju með að hafa sýnt það í verki að hann tekur rökum.

Hér er verið að fjalla um breytingar á lögum um siglingavernd. Þetta eru ekki ýkja gömul lög. Eins og hv. formaður samgöngunefndar man eftir flutti núverandi formaður þingflokks Samfylkingarinnar fjölda ræðna gegn þeim lögum og gegn því frumvarpi á sínum tíma. Ástæðan var sú að í hverri einustu grein, að minnsta kosti eftir mínu roskna minni, var verið að taka upp ný og ný gjöld. Ég varaði hv. þm. Guðmund Hallvarðsson einstaklega drengilega við því að feta þá slóð. Á þeim tíma brást hann ekki vel við þeim ábendingum mínum og viðvörunarorðum og satt að segja kom mér það á óvart hversu daufleg viðbrögð hins hv. formanns samgöngunefndar, sem yfirleitt er þó endranær með skynsamari mönnum hér í þessum sal, voru við málinu.

Nú sé ég hins vegar að hann batnar með aldrinum eins og gott vín, því hér er að minnsta kosti verið í einu efni að stíga til baka frá því gjaldtökuæði sem var í hinum upprunalegu lögum. Hv. formaður samgöngunefndar er í fylkingarbrjósti nefndarinnar þegar hún sameinast um það að draga úr möguleikum á gjaldheimtu vegna innheimtu siglingaverndargjalds, þ.e. verið er að lina aðeins ákvæðið. Verið er að setja inn heimildarákvæði í stað þess að það var áður, muni ég rétt, fortakslaust kveðið á um slíka gjaldtöku.

Hugsanlega mundu fleiri ræður af minni hálfu leiða til þess að framkoma siglingamálayfirvalda og hæstv. samgönguráðherra og jafnvel formanns samgöngunefndar gagnvart sæfarendum mundi mildast nokkuð. Ég ætla þó ekki að hafa ræður mínar fleiri um þetta.

Hins vegar langar mig til að benda á að með frumvarpinu er verið að leggja til að Siglingastofnun Íslands geri áhættumat vegna siglinga innan íslensku efnahagslögsögunnar. Maður skyldi nú ætla, frú forseti, að slíkt mat hefði verið gert fyrir langa löngu. Ekki síst í ljósi umræðna síðustu daga þegar fram hefur komið að starfsmenn Siglingastofnunar sem fara með eftirlit með öryggi sæfarenda hafa margsinnis, að því er fram hefur komið, lagt á það áherslu við þar til bær pólitísk yfirvöld að slíkt mat verði gert. Þeir hafa sagt alveg skýrt að þeir telji það ósvinnu að hleypa stórum erlendum flutningaskipum svo nálægt landi sem raun ber vitni og hefur nú leitt til þess að eitt þeirra liggur strandað við Suðurnesin. Enginn vill gangast við ábyrgðinni á að fjarlægja það eða greiða af því kostnaðinn.

Það sem ég vildi sérstaklega draga fram gagnvart mínum góða vini, hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, er: Hvers vegna er verið að taka þetta upp? Jú, vegna þess að við verðum að gera það. Það er Evrópusambandið, sem vekur ugg, skelfingu og titring í taugakerfi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem fortakslaust fyrirskipar Íslendingum að gera það.

Þess vegna, frú forseti, erum við m.a. að taka upp þetta tímabæra ákvæði í lög sem beinlínis fyrirskipar Siglingastofnun að gera slíkt mat. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að þetta er enn eitt dæmið um hversu margt gott kemur frá Evrópusambandinu. Þarna er verið að reka íslensk yfirvöld bókstaflega til þess að ráðast í að grípa til ákveðinnar verndaráætlunar gagnvart sæfarendum við Ísland.

Það voru ekki íslensk samgönguyfirvöld sem höfðu frumkvæðið að því. Það var Evrópusambandið. Gott ef það var ekki Evrópusambandið líka sem leggur þær kvaðir á herðar okkur, sæþjóðinni, að búa til sérstaka siglingaverndaráætlun. Maður skyldi nú ætla að stjórnmálaflokkur sem hefur árum saman farið með samgönguráðuneytið, jafnvel svo lengi sem elstu menn muna, allar götur að minnsta kosti frá 1991, hefði gert reka að því að gera þetta. Nei, það þurfti að berja bumbur í Brussel til að þessir menn vöknuðu.