133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:47]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar, hefur farið ágætlega yfir og ekki þarf miklu að bæta við það nefndarálit og þær breytingartillögur sem við í samgöngunefnd flytjum hvað þetta varðar og jafnframt hefur verið farið ágætlega yfir það af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni líka.

Eins og hér hefur komið fram er verið að innleiða í íslenskan rétt tilteknar gerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í viðauka samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Þetta er ákvæði sem eykur mjög öryggi skipa og öryggi hafnaraðstöðu.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu er lagt til að Siglingastofnun Íslands geri áhættumat vegna siglinga innan íslensku efnahagslögsögunnar og Siglingaverndaráætlun Íslands. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að auka við heimildir Siglingastofnunar Íslands til að annast eftirlit með framkvæmd laganna, þess vegna að beita farbanni ef þörf krefur.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er ég á nefndarálitinu án fyrirvara. Styð þær breytingar sem settar eru fram, og ágætlega var unnið í samgöngunefnd.

En vegna þess sem hér hefur verið rætt um er alveg hárrétt að vitnað hefur verið í þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson flutti hér og var samþykkt. Hún var líka til umræðu ekki alls fyrir löngu á Alþingi í sambandi við strand Wilson Muuga við suðurströndina og má alveg taka undir það sem hér hefur komið fram. Það er náttúrlega ámælisvert að hæstv. samgönguráðherra og samgönguráðuneytið skuli ekki hafa gert meira í því máli hvað það varðar. Fram hefur komið að átta ár eru liðin síðan taka átti á þessum málum og ganga í það, en það kom skýrt fram að vegna andstöðu skipafélaganna hafi þessu ekki verið breytt, þ.e. að afmarka siglingaleiðir skipa og færa þær fjær landi.

Rætt hefur verið um Wilson Muuga sem liggur uppi í fjöru. Deilt er um hver eigi að borga björgun, hver eigi að fjarlægja flakið og hvað eigi að gera. Má ég líka, virðulegi forseti, nefna strand sem kostaði mikið, Víkartind, sem að vísu var með bilaða vél en rak upp í fjöru. En það má alveg spyrja sig að því hvað hefði gerst hefði það skip verið skyldað til að vera fjær landi þegar vélin bilaði og spurning um hvort það hefði getað kastað akkerum eða tekist hefði betur til að halda skipinu frá strandi. Ég held að rétt sé að það komi fram og vonandi er það þá þannig að þetta verði til þess að gengið verði í það sem allra fyrst að finna og afmarka þær siglingaleiðir til að koma í veg fyrir fleiri svona slys, eins og hér hafa átt sér stað og gerð hafa verið að umtalsefni.

Jafnframt, virðulegi forseti, af því ég nefndi Wilson Muuga, strandaðan uppi í fjöru, tökum við líka eftir því að verið er að ræða um þær bætur sem skipafélagið á að greiða sem rétt duga fyrir því sem gert var til að forða mengunarslysi, eða 70 milljónir. Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að einhver handvömm er í tilskipunum eða ákvörðunum sem hafa verið gefnar út sem hefur gert það að verkum að við höfum ekki breytt þessu hjá okkur. Menn hafa talað um að ef við hefðum breytt því hefði þetta verið að minnsta kosti 200 millj. kr.

Í þessu sambandi er tekið dæmi af Norðmönnum sem gerðu breytingar hjá sér eftir að fiskveiðiskipið Guðrún Gísladóttir strandaði við Norður-Noreg, þá var þessu breytt hjá þeim.

En ég held að full ástæða sé til, virðulegi forseti, þó svo að það sé ekki inni í þessu lagafrumvarpi, að hvetja til þess að þetta verði gert sem allra fyrst.

Má ég svo rétt í lokin minnast á umfjöllun Fréttablaðsins sem hefur síðustu einn eða tvo daga verið að fjalla um hættuleg skip sem eru á ferðinni í kringum okkur sem er auðvitað mjög alvarlegt mál ef ekki verður hægt að koma þeim lengra frá landinu, ef svo má að orði komast.