133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það var nú einmitt m.a. þetta strand sem ég ætlaði að taka hér til umræðu því að svo margir höfðu farið inn á þá braut að vitna í strand þessa flutningaskips hjá Sandgerði eða við Stafnes. Það er náttúrlega íhugunarefni út af fyrir sig að það skuli geta verið þannig að menn hafi það sem afsökun að sjálfstýringin slái út og þá sigli menn bara beint upp á land á fullri ferð. Þetta er náttúrlega með slíkum ólíkindum að maður fær því varla trúað að slík rök séu borin fram fyrir ferð skipsins og endalokum þess. Það er nú venjulega þannig að það er hægt að grípa í handstýrið ef menn eru á annað borð á vaktinni en það virðist sem enginn hafi verið á vaktinni í þessu skipi miðað við þær lýsingar sem maður hefur fengið af þessu. En ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að ég hef ekki orðið var við að það væri upplýst um sjópróf eftir þetta strand þannig að það auðvitað vekur furðu.

Það sem ég hins vegar vildi gera að aðalumræðuefni hér í stuttri ræðu, hæstv. forseti, er að það er orðið afar nauðsynlegt að fara að marka siglingaleiðir skipa umhverfis Ísland. Það hefur auðvitað alltaf verið nauðsynlegt vegna þess að þó að menn tali oftast nær um að það séu svokölluð tankflutningaskip, þ.e. gasskip eða olíuskip sem séu hættulegust þá eru flutningaskip sem flytja oft tugi gáma með alls konar kemískum efnum og eiturefnum sem geta verið mjög miklir mengunarvaldar ef þau komast í sjó.

Það er algjörlega rétt sem hér hefur verið bent á að siglingaleiðir mjög margra skipa með suðurströnd landsins eru þannig að stefnan er sett frá Evrópu upp að suðausturhorni landsins og síðan siglt vestur með ströndinni. Þar er auðvitað verið að sigla yfir öll okkar helstu fiskimið og uppeldisslóðir, hrygningarsvæði, og þar af leiðandi getur slys á því svæði valdið mjög mikilli röskun á lífríkinu við Ísland fyrir utan náttúrulega mengunarhættu og ýmsar aðrar afleiðingar.

En auðvitað er vandasamt að marka siglingaleiðir. Þó að vissulega megi kannski marka siglingaleiðir hér sunnan lands eitthvað dýpra og jafnvel utan við allar eyjar Vestmannaeyja þá þarf samt að velja siglingaleið fyrir Reykjanes og það er auðvitað talsverð spurning sem ég held að allir siglingafróðir menn velti fyrir sér og ég hugsa að við höfum báðir gert það, ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, það er siglingaleiðin í gegnum Röstina. Það kann vel að vera hægt að færa fyrir því rök að skynsamlegra sé að fara Röstina en að fara dýpra við ákveðnar aðstæður. Menn skulu ekki gleyma því að Reykjaneshryggurinn og sker og boðar eru þarna út eftir og sjólag ekki endilega betra fjær landinu en nær, fyrir utan það að það er yfirleitt mjög sterkur straumur í Röstinni. Ef siglingu skips sem fer í gegnum Röstina er rétt hagað þá tekur það kannski ekki mjög langan tíma þó að menn þurfi að fara nálægt landi rétt á meðan þeir fara yfir Röstina. Það er hins vegar val á siglingaleiðinni að Röstinni og hins vegar norður eða suður úr henni eftir atvikum sem menn ættu virkilega að taka til umfjöllunar og skoðunar.

Síðan eru skip að verða æ djúpristari og það hefur nýlega verið upplýst t.d. af Landhelgisgæslunni að sést hafi til skipa sigla yfir Syðragrunn í Faxaflóa í veðuraðstæðum sem flestallir sem þekkja til mundu ekki láta sér detta í hug að sigla þar yfir. Þá skulum við ekki gleyma því að skipatraffíkin upp í Hvalfjörð — ef menn fara fyrir Garðsskagann, ætli siglingaleiðin liggi ekki svona nokkurn veginn yfir ef menn setja beina leið á Hvalfjörðinn. Það er eins og menn hugleiði þetta ekki og þegar djúprista fullhlaðinna skipa er kannski 14, 15 metrar eða jafnvel meira þá sjá menn auðvitað hvers konar fíflaáhættu er verið taka með því að sigla yfir þessi grunn í vondum veðrum og það er hreint ótrúlegt að það skuli geta gerst.

Þetta segir okkur auðvitað að það er orðið mjög nauðsynlegt að marka siglingaleiðir og setja þeim ákveðnar reglur þó svo að ég telji að það þurfi að vanda sig mjög vel þegar við tölum um Reykjanesröstina sjálfa. Það er ekki sjálfgefið að við fáum aukið öryggi út úr því að færa skipin utar eða fara mjög djúpt fyrir Röstina. Það er þá miklu frekar að menn sigli ekki of nærri landinu norður með eða austur um þegar þeir eru búnir að fara fyrir Röstina, því að flestir hafa nú svona — eða maður skyldi a.m.k. ætla það að flestir hefðu mjög vakandi auga á sér og sínu skipi þegar þeir fara í gegnum Reykjanesröstina. Ég hugsa að fáir sigli þar í gegn án þess að standa vaktina sína. Þó kann það að vera því að þetta strand við Stafnes er í raun og veru alveg furðulegt þegar maður hugleiðir að menn skuli geta farið þar bara beint upp út af engu öðru en því að sjálfstýringin virðist hafa slegið út. Það er í raun og veru alveg makalaust að það skuli geta gerst.

Það þarf auðvitað að marka margar fleiri siglingaleiðir heim í land og við þurfum líka að fara að huga að sérstökum siglingaleiðum fyrir hin stærri skip sem sigla fram hjá landinu, sérstaklega kannski stórum tankskipum sem sigla með olíu eða gas. Því miður er það svo, þó að væntanlega munum við fá nýtt varðskip sem hefur miklu meira togafl en þau varðskip sem við höfum í dag, að við erum ekki með neina dráttarbáta hér á landi sem ráða við þessi stóru skip við vondar aðstæður, slík viðbrögð eru bara ekki til. Við værum kannski að tala um svipaðan dráttarbát og dró skip af strandstað við suðurströndina ef við ætluðum virkilega að ráða við 300 þúsund tonna skip þunglestað af t.d. olíu. Þó að við höfum séð Wilson Muuga fara upp í fjöru við Stafnes þá blessunarlega hefur ekki fylgt því mikil mengun hingað til og vonandi erum við komin fram hjá því með því m.a. að ná olíunni úr skipinu, þó að það eigi auðvitað eftir að hreinsa fjöruna og væntanleg skera skipið niður í brotajárn.

Fólk gæti ímyndað sér hvað mundi ske t.d. ef svo illa færi að 200–300 þús. tonna olíuskip ræki upp á strandabrekana á Hornströndum, ef það kæmi upp alvarleg vélarbilun og skipið ræki þar upp á og ekkert yrði við neitt ráðið. Við eigum nefnilega engin sérstök skip sem ráða við það að draga svona skip, varla tæk til að halda þeim upp í veður og vind þó svo að menn kæmu öflugum taugum á milli, sem eru kannski ekkert til staðar almennt í skipum í dag nema þá kannski helst í varðskipunum því að þarna er um gríðarlegt átak að ræða. Man ég ekki rétt að togaflið í dráttarbátnum sem dró skipið út af suðurströndinni hafi verið 280 togtonn? (Gripið fram í.) Já, nýja varðskipið okkar er með 100. Við erum nefnilega að tala um það að við höfum ekki nein tæki til að bregðast við svona aðstæðum og þess vegna er svo nauðsynlegt að fara að marka siglingaleiðir sem liggja þá langt undan landinu, sérstaklega fyrir hin stærri skip, til þess að það sé þó einhver tími til þess að bregðast við. Þannig að ef um vélarbilun væri að ræða þá væri annaðhvort hægt að bregðast við henni með því að gera við eða þá að nægur tími væri til þess að einhver skip gætu komið að til aðstoðar. Ég býð ekki í það, hæstv. forseti, hvað mundi ske við norðurströnd landsins ef 200–300 þús. tonn af olíu færu þar í hafið og ræki upp á strandirnar og síðan austur með öllu Norðurlandi en þannig er nú straumakerfið.

Við höfum engan veginn hugleitt þetta nægjanlega vel og þess vegna vek ég athygli á því að það sem hér er verið að tala um, þ.e. að gera leiðir fyrir áhættumat og siglingar innan lögsögunnar er orðið mjög brýnt mál. En þá verðum við líka að átta okkur á því að við verðum að hafa tæki sem ráða við það ástand sem getur skapast. Það höfum við ekki í dag, hæstv. forseti, og þess vegna er kannski enn þá nauðsynlegra að við förum að marka einhverjar siglingaleiðir sem gætu þó gefið okkur tækifæri til þess að bregðast við.