133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

úttekt á upptökuheimilum.

[13:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins að höfðu samráði við félagsmálaráðherra en ég setti mig í samband við hann í gærkvöldi eftir að hafa horft á Kastljóssþátt þar sem fjallað var um meðferð ungra drengja á Breiðavíkurheimilinu á 7. áratugnum. Fjallað var um sama mál í Kastljósi á fimmtudaginn í síðustu viku. Ég vil koma þökkum til Kastljóssfólksins fyrir það hversu vel það hefur tekið á þessu máli og vakið okkur til vitundar um það hvernig farið var með ung börn sem send voru á ýmis upptökuheimili á árunum eftir stríð og kannski allt fram á 9. áratuginn. Við höfum líka nýverið heyrt fréttir af því hvernig farið var með heyrnarlaus börn sem voru í Heyrnleysingjaskólanum.

Mér fannst því ástæða til þess, virðulegi forseti, að ræða það við félagsmálaráðherra hvort ekki væri ástæða til þess að stjórnvöld létu vinna úttekt á þessum málum, safna gögnum um slíkar stofnanir sem reknar voru, taka viðtöl við fólk sem þar var vistað og reyna að komast til botns í því hvernig að þessum börnum var búið. Það er skoðun mín að við verðum að takast á við þann fortíðardraug sem þarna var vakinn upp. Þarna voru ung börn send fyrir atbeina opinberra aðila í útlegð, ef svo má segja, og ofurseld andrúmslofti ofbeldis og níðingsverka. Samfélagið á þessu fólki skuld að gjalda og ég vil óska eftir því við hæstv. félagsmálaráðherra að hann beiti sér fyrir úttekt á þessum málum.