133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

úttekt á upptökuheimilum.

[13:38]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að flesta hafi sett hljóða sem horfðu á umfjöllun Kastljóssins í gærkvöldi og líka fyrir helgi um þetta skelfilega mál. Ég fagna því að sjálfsögðu að hæstv. félagsmálaráðherra ætli að taka á þessum málum og ég vona svo innilega að þessi mál verði könnuð ofan í kjölinn, ekki bara þetta tiltekna heimili heldur hugsanlega einnig aðrar stofnanir. Við munum öll eftir því sem kom fram varðandi Heyrnleysingjaskólann og þar fram eftir götunum.

Ég hygg að það sé einnig mikilvægt að við skoðum á hvern hátt við getum komið til móts við það fólk sem hefur lent í þessum skelfilegu aðstæðum. Það hlýtur að vakna spurning um það, virðulegur forseti, hver sé í raun ábyrgðin og hvort ekki sé full ástæða til að þetta fólk fái einhverja aðstoð. Málið virðist hafa legið í þagnargildi í allt of mörg ár. Þá vakna líka spurningar um það hvort ríkið sé ekki hugsanlega bótaskylt í þessum málum. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli því þegar hlustað er á frásagnir þessa fólks, sem komið er á fullorðinsaldur í dag, hefur margt af því gengið í gegnum miklar hremmingar, komið skaddað á sálinni frá þessu, ef svo má segja.

Ég held að þetta veki okkur líka öll til umhugsunar um að hugsanlega geti eitthvað slíkt viðgengist enn þann dag í dag, virðulegi forseti. Þegar ég var að vafra á netinu í morgun til að kynna mér málið betur rakst ég á bloggfærslu hjá Salvöru Gissurardóttur og mig langar að lesa hana upp að lokum, með leyfi forseta:

„Ég vona samt að sú stund komi ekki í framtíðinni að ég og aðrir sem stöndum nærri börnum sem eiga erfitt með að fóta sig þurfum að horfast í augu við fortíðina og finna sök okkar.“ (Forseti hringir.)

Við skulum hafa þetta í huga.