133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

úttekt á upptökuheimilum.

[13:43]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að lýsa yfir vilja á að rannsaka málið. Þessi Kastljóssþáttur var nú þannig að maður leitaði þó nokkuð oft ástæðna til að fara fram, ná sér í kaffibolla eða eitthvað slíkt, því að það var mjög erfitt að horfa á hann.

Það er eitt í þessu sem mig langar til minnast sérstaklega á varðandi þessa umræðu og það er kynferðislega ofbeldið sem þarna fór fram. Menn hafa oft rætt um hegningar á þinginu, að þyngja hegningar og meðferðir o.s.frv. Þarna kemur enn og aftur í ljós hve kynferðislegt ofbeldi er afdrifaríkt, margir kalla það andlegt morð, hversu illa það fólk fer út úr því sem lendir í slíku í æsku og hversu oft það leiðist síðan á villigötur þegar fram líða stundir. Því miður er það oft undirrótin að því að fólk leiðist í alls konar óreglu, fikniefnaneyslu o.s.frv. Þetta er stóralvarlegt mál, kynferðislegt ofbeldi á stóran þátt í því að skaða fólk að eilífu. Það er að sjálfsögðu okkar mál að taka á þessu í framtíðinni og læra af því. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að athuga hvort slíkt geti mögulega þrifist á öðrum stöðum. Því miður er það svo, t.d. á barna- og unglingageðdeild, að kynferðislegt ofbeldi er mjög oft ástæða þess að börn þurfa að sækja þangað í meðferð.