133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

úttekt á upptökuheimilum.

[13:44]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka félagsmálaráðherra fyrir að taka vel í ósk mína um að þessi mál verði rannsökuð, að aflað verði gagna um slík heimili sem hér voru rekin og tekin viðtöl við þá sem þar voru vistaðir. Ég vissi það raunar eftir samtal mitt við hann í gærkvöldi að hann mundi taka þessu vel og ég vona að gengið verði hratt og vel í þetta verk og fengnir til þess faglegir aðilar.

Eins og kom fram í þessum þáttum upplifðu þessir ungu drengir, sem voru allt frá 7–8 ára aldri, mikla vanlíðan, þeir upplifðu stöðugar hótanir og niðurlægingu, þeir upplifðu að þeir væru sviptir sjálfsvirðingu sinni og æru, og eins og einn þeirra sagði að hann hefði aldrei fengið hana aftur. Ég endurtek það að mér finnst við eiga þessum mönnum og öðrum sem fyrir þessu hafa orðið á slíkum heimilum skuld að gjalda og að taka verði strax á þessum málum. Við getum leitað í smiðju til annarra þjóða um hvernig að slíkum málum hefur verið staðið. Norðmenn gerðu slíka úttekt á árunum 2003–2004 og sú úttekt leiddi m.a. í ljós að á slíkum heimilum í Bergen hafði þriðji hver vistmaður orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi. Miðað við þær frásagnir sem við heyrðum í gær er ekki fjarri að áætla að svo hafi einnig verið í Breiðavík á þessum árum þó að ég sé ekki þess umkomin frekar en aðrir að fullyrða þar um.

Ég ítreka ósk mína, virðulegur forseti, um að þessi rannsókn verði gerð og að það verði ákveðið hið allra fyrsta og staðið verði þannig að málum að við getum með einhverjum hætti bætt þann mikla miska sem þeir einstaklingar urðu fyrir sem þarna voru vistaðir og að þeir upplifi það þá ekki núna, eins og þeir gerðu á þeim árum, að þeir séu aleinir í heiminum.