133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að mér finnst ekki sanngjarnt af hv. þingmanni að koma í ræðustól og tala um að Samfylkingin og Vinstri grænir hafi brugðist í þessu efni. Hv. þingmaður hefur þá ekki fylgst með. Það er ekki sanngjarnt að hann komi hér, berji sér á brjóst og segi að það séu Frjálslyndir einir sem hafi haft áhyggjur af streymi fólks hingað til landsins. Hv. þingmaður var í félagsmálanefnd og hann vissi hvaða áherslu við lögðum þar, bæði um frestunina, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, um að mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda, opnað verði fyrir flæði fólks hingað til landsins og að það mál sem við erum að fjalla um hér hefði orðið að lögum áður en opnað yrði fyrir innstreymi fólks. Þetta var okkar innlegg í málið. Og ég vil leyfa mér að minna hv. þingmann á að sá sem var kannski fyrstur til að færa þetta mál inn í þingsali fyrir fimm árum var Össur nokkur Skarphéðinsson, hv. þingmaður, sem lagði fram þingmál um að mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda. Við höfum því sannarlega haft áhyggjur af þessu og fundist vanta ákveðinn lagaramma til að við getum tekið vel á móti þessu fólki.

Hv. þingmaður nefnir líka að hann skilji ekki verkalýðshreyfinguna, af hverju hún hafi stutt þessa opnun í maí sl. Það kom skýrt í ljós í nefndarstarfinu af hverju ASÍ studdi þetta mál, kemur meira að segja fram í nefndarálitinu. Þar segir að með þessari opnun muni atvinnurekendur síður þurfa að nýta sér þjónustu starfsmannaleigna og því ætti frumvarpið að ýta undir beinar ráðningar milli atvinnurekanda og launamanns. Með öðrum orðum var verið að koma í veg fyrir félagsleg undirboð sem við vissum að viðgengust í gegnum starfsmannaleigurnar. Ég er sannfærð um, miðað við stöðu atvinnumála eins og hún var og hefur verið á undanförnum mánuðum, að jafnvel þó að við hefðum farið þá leið sem Frjálslyndir lögðu til, þ.e. að fresta því í tvö ár að taka á móti þessu fólki, hefði það komið í stríðum straumum í gegnum starfsmannaleigurnar — og ekki í minna mæli en gerðist áður en við nýttum þessa frestun.