133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og sá sem hér stendur hafa ólíka sýn á það hvað hefði verið hægt að gera í vor þegar verið var að keyra þessi lög í gegnum þingið á methraða. Það verður þá bara svo að vera. Ég tel að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu átt að sameinast um að reyna að þvinga ríkisstjórnina til að koma með nýtt frumvarp á lokadögum apríl sl., frumvarp þar sem farið — eða réttara sagt þetta er ekki nema ákveðin orðalagsbreyting í ákveðnum lagatexta, ég er ekki einu sinni viss um að þetta þurfi að fara fyrir Alþingi. Jú, sennilega þarf það að gera það. En þessi litla breyting hefði verið gerð á lögum um útlendinga, ef ég man rétt, þar sem við höfðum farið fram á frestun til 2009 eða 2011. Þetta er sú hernaðaráætlun sem stjórnarandstaðan hefði átt að leggja upp með. Þetta var mín skoðun í vor og skoðun okkar í Frjálslynda flokknum í vor og er enn. En þetta var ekki gert og við sjáum að ríkisstjórnin hefur átt í miklum vandræðum með að efna þau loforð sem hún þó reyndi að gefa stjórnarandstöðunni á þessum vordögum. Það er bara þannig, þetta er búið og gert. Þessi lög tóku gildi og núna stöndum við frammi fyrir mjög miklum félagslegum áskorunum, t.d. á vinnumarkaði, á launamarkaði, varðandi menntakerfið og hugsanlega heilbrigðiskerfið líka. Við vitum ekki alveg hvernig við ætlum að leysa þetta. Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra geti svarað þinginu einhverju um það þegar hann mælir — ég vona að hann geri það — fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar sem nú liggur þó fyrir í þessum málum. Þegar maður les yfir þá stefnumótun vakna mjög margar áleitnar spurningar um það hvernig við ætlum að fara að því að útfæra þá þætti sem þar eru nefndir, eins og varðandi menntamálin, hvernig við eigum að skipta hlutverkum milli sveitarfélaga og ríkis og annað þar fram eftir götunum.

En enn og aftur: Ég vona svo sannarlega að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé þó a.m.k. skref í rétta átt. Ég mun leggja mig allan fram í þeirri vinnu sem bíður okkar í félagsmálanefnd.