133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð til að varpa ljósi á það sem gerðist hér sl. vor. Það er alveg rétt, sem hér hefur verið minnt á, að þá var samþykkt frumvarp eða lagabreyting í talsverðum flýti. Ástæðan var sú að frumvarp ríkisstjórnarinnar var mjög seint fram komið og það var alveg undir lok aprílmánaðar að við vorum að fjalla um þetta í þinginu. Ef ekkert frumvarp hefði verið samþykkt í lok apríl 2006 hefði vinnumarkaðurinn opnast algerlega vegna þess að um var að ræða fyrirvara sem festur hafði verið í lög við stækkun Evrópusambandsins vorið 2004. Sá fyrirvari gilti í tvö ár. Ef ekkert hefði verið að gert hefði vinnumarkaðurinn opnast að fullu. Þessi fyrirvari tók til tíu ríkja, strangt til tekið átta vegna þess að Kýpur og Malta voru strax undanþegin þessum fyrirvara. Eftir stóðu þá átta ríki. Enn eru fyrirvarar gagnvart þessum átta ríkjum. Þeir fyrirvarar lúta að því að allt starfsfólk sem kemur frá þessum ríkjum ber að skrá og tilkynna til Vinnumálastofnunar og öll viðleitni frá þessum tíma hefur gengið út á að sjá til þess að sú skráning sé eins og vera ber. Út á þetta hefur starf verkalýðshreyfingar og stjórnvalda gengið, að færa það sem var neðan jarðar upp á yfirborðið og inn í traustari skráningu en ella hefði verið. Það gilda aðrar reglur um starfsfólk frá þessum ríkjum en um starfsfólk annars staðar en í Evrópusambandinu þannig að vinnumarkaðurinn er ekki að öllu leyti, eins og ég skil það, opinn gagnvart þessu starfsfólki.

Það sem mér finnst skipta meginmáli, og ég vildi ítreka það í lokaorðum mínum, er tvennt: Í fyrsta lagi að við búum við stefnu í málefnum innflytjenda sem við teljum viðhlítandi og sátt er um í samfélaginu og tryggir réttindi og kjör aðkomufólks til Íslands.

Í annan stað er það mín skoðun að við séum að kalla á allt of margt fólk til landsins á of skömmum tíma með því þenja atvinnukerfið. Ég er sammála því sem hér kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að þetta hófst með Kárahnjúkavirkjun og stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur kynt undir þessa stefnu. Síðan hefur þetta hlaðið utan á sig og alls staðar er boginn spenntur til hins ýtrasta. Þá verðum við sem búum við lítið hagkerfi, við erum ekki ýkjafjölmenn þjóð, að gæta að því sem hugsanlega á eftir kemur. Við höfum áður upplifað mikla þenslu í íslensku hagkerfi. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til ársins 1987. Þá var mikil þensla og mikil eftirspurn eftir vinnuafli á íslenskum atvinnumarkaði. Síðan rennur upp árið 1988, 1989, 1990, 1991 og það dregur saman og hér verður mesta atvinnuleysi sem orðið hefur á Íslandi frá lokum seinna stríðs. Þetta eru hlutir sem geta að sjálfsögðu hent aftur og þá reynir á allar stoðir okkar velferðarsamfélags. Það reynir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það reynir á almannatryggingakerfið. Það reynir á alla innviði samfélagsins. Þess vegna ber okkur að sýna aðgát og hyggindi þegar við skipuleggjum efnahagskerfi okkar og hvað við tökum okkur fyrir hendur þar. Hér beini ég mjög þungum ásökunum í garð stjórnvalda sem hafa þanið hagkerfið til hins ýtrasta og halda áfram eins og brennuvargar, kveikja bara í næsta bálkesti; næsta álver, næsta stóriðjuver, næstu virkjanir, næstu stórframkvæmdir. Þetta er mergurinn málsins. Þarna er að finna rót vandans. Hana er því miður að finna í Stjórnarráði Íslands í þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt og ýmsir aðilar aðrir í íslensku atvinnulífi.