133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er mjög sammála orðum síðasta ræðumanns og flutningsmanns þessarar tillögu, að eigi menn að takast á við þessa hluti af einhverri alvöru verður auðvitað að byrja á því að stöðva stóriðjufárið sem hér hefur geisað og á að geisa sem aldrei fyrr á næstu árum, 5–8 árum og jafnvel lengur ef ekkert verður að gert. Það höfum við reyndar lagt til í nokkur ár. Við höfum flutt tillögur um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og í þeirri tillögu hefur einmitt hrygglengjan verið sú, þó það sé efnahagsleg nálgun kannski ekki síður en umhverfisleg, að gefin verði út formleg yfirlýsing af hálfu opinberra aðila um að þeir muni hvorki stuðla að né veita leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu a.m.k. til ársloka 2012, höfum við sagt. Á meðan verði áherslan lögð frekar á smærri iðnaðarkosti og tíminn notaður til að ljúka þeirri undirstöðuvinnu sem ekki hefur verið unnin af hálfu okkar Íslendinga, þ.e. ljúka gerð og staðfestingu eftir atvikum með lagastoð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og öðru því sem þarf að koma í búning í þessum málum, þar með talið því sem hér er komið inn á í sambandi við losunarmálin og síðan náttúruverndarmálin sem slík. Ég tel að það sé góðra gjalda vert að bera saman þá nálgun sem flutt er í þessu þingmáli um rammaáætlun um náttúruvernd. Þó ber þess vissulega að geta að í gildi eru náttúruverndarlög og þar er fjallað um náttúruverndaráætlun og á að heita svo að hún sé í gildi og ætlunin sé að reyna að framkvæma hana. Vandinn er hins vegar sá að það miðar ósköp lítið. Í sjálfu sér eru lagaákvæðin um náttúruverndaráætlun, eins og þau birtast í lögum nr. 44/1999, ágæt ef metnaðarfullur vilji stendur á bak við lögin til að láta hlutina gerast.

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk, samkvæmt k-lið 6. gr., að undirbúa og afla gagna vegna náttúruverndaráætlunar, samanber 65. gr., og þar er Náttúrufræðistofnun Íslands ætlað stórt hlutverk að sjálfsögðu. En þá þarf líka að búa að þeim stofnunum þannig að þær hafi fjármuni og mannafla til að vinna verkefni sín.

Náttúruverndaráætlunin, samkvæmt VIII. kafla náttúruverndarlaganna sem fjallar um náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá, hljóðar á þá leið að umhverfisráðherra skuli ekki sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna slíka áætlun fyrir landið allt og leggja hana fyrir Alþingi. Í þeirri náttúruverndaráætlun skulu vera samkvæmt 66. gr. sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem ástæða þykir til að friðlýsa. Svo er löng upptalning á alls kyns náttúrulegum fyrirbærum og menningarlegum og sögulegum minjum o.s.frv. Þetta er allt saman góðra gjalda vert og núgildandi náttúruverndaráætlun sem er, ef ég man rétt er til 2008, tiltók 14 svæði sem ætti að friðlýsa á tímanum. Ef ég veit rétt hefur aðeins eitt þeirra enn þá verið friðlýst, Guðlaugstungur. Milli 70 og 80 svæði voru listuð upp í þessari náttúruverndaráætlun en eins og áður sagði komust aðeins 14 inn á listann yfir þau sem átti að friðlýsa og þar af hefur aðeins eitt farið í gegn. Við sjáum öll í hendi okkar að nú þegar langt er liðið á áætlunartímann er ekki verið að standa þarna að málum með nægilegum metnaði. Var þó þessi náttúruverndaráætlun gagnrýnd fyrir það að sneiða hjá viðkvæmustu málunum, fara svolítið eins og köttur í kringum heitan graut, þ.e. miðhálendið og vinjarnar þar, hverjum er hótað af virkjanaáformum voru að miklu leyti undanskilin en svæðin sem fengu náð fyrir augum ráðherra og ríkisstjórnar voru fyrst og fremst nær byggð.

Allt þetta ber auðvitað að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Það er svo sannarlega þörf á að taka betur til hendinni og eigum við ekki að vona að næsta umhverfisráðherra, í hvers konar ríkisstjórn sem það nú verður, vonandi góðri, verði meira úr verki en þeim sem farið hafa með þetta að undanförnu. Þetta hefur bókstaflega ekkert verið að ganga og það er sorglegt. Auðvitað er það líka á röngum stað að iðnaðarráðherra skuli hafa forræði á rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það á að vera hjá Umhverfisstofnun.

Mörg og brýn verk gætu fallið hér undir. Ég vil ekki láta gleymast vatnsverndarþáttinn og minni þar á tillögu sem þingmenn allra flokka hafa flutt á Alþingi í tvö ár, um friðlýsingu stærsta vatnsfallsins sem eftir er ósnortið í landi með óbreyttum rennslisháttum, þ.e. Jökulsár á Fjöllum með öllum hennar þverám. Það eitt og sér væri stór áfangi í náttúruverndarmálum í landinu ef sú tillaga fengi loksins náð fyrir augum þeirra sem stjórna verkum á þingi, en svo undarlega vill til að þrátt fyrir mikla samstöðu, jákvæðar umsagnir o.s.frv., hefur tillagan alltaf setið föst í umhverfisnefnd Alþingis þó að þverpólitísk samstaða virðist blasa við í málinu. Það er ekki í lagi, virðulegi forseti, að hlutirnir skuli dankast þannig.

Það er eins og ég sagði áðan alger forsenda þess að einhver vinnufriður skapist um þessi mál, að breytt verði um kúrs í stóriðjumálunum. Þau áform sem hér eru listuð upp í tillögunni taka til stækkunar í Straumsvík, taka til áforma um byggingu þess sem margir telja aðeins vera fyrri helminginn af fullvöxnu álveri í Helguvík, aðeins vera fyrri helminginn af fullvöxnu álveri við Húsavík og jafnvel í viðbót áform um álgarð og álver í Þorlákshöfn. Ef þetta á allt að verða að veruleika á næstu 5–8 árum, þá er þetta auðvitað tómt mál, þá er þetta brandari, og flestöllum meiri háttar virkjunarkostum ógnað í landinu sem eitthvað að ráði hafa verið rannsakaðir. Það er þá að verða teljandi á fingrum annarrar handar þau vatnsföll og þau háhitasvæði sem menn eru ekki farnir að bera víurnar í. Það verður auðvitað eins og hver annar brandari að ætla að fara að koma saman einhverri rammaáætlun eða gera einhverja stóra hluti í þessum efnum árin 2012–2015 þegar meira og minna verður búið að virkja allt sem hægt er að virkja.

Við erum á afdrifaríkum tímamótum í þessum efnum og þess vegna er það mjög gott að menn safni liði sem allra mest í því að gera þessi mál upp, leggja þau fyrir með skýrum hætti í kosningunum í vor og að þjóðin geti sent skýr skilaboð um það: Vill hún óbreytta siglingu í þessum efnum eða vill hún það stóriðjubindindi, stóriðjustopp sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum barist fyrir? Ég tel þessa tillögu sem meira og minna sama eðlis, að það feli í raun og veru í sér stefnumótun af hálfu Samfylkingarinnar um að nú verði látið staðar numið og ekki teknar ákvarðanir um frekari stóriðjuframkvæmdir heldur tíminn notaður næstu árin til að taka rækilega til hendinni í náttúruverndarmálum.