133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki miklar athugasemdir eða svör fram að færa við útlistunum hv. þingmanns. Það er alveg ljóst að menn verða að hafa á hreinu og aðgreina það hver nálgunin er í mismunandi vinnu á þessum sviðum. Náttúruverndaráætlunin samkvæmt náttúruverndarlögum er auðvitað hrein verndaráætlun. Hún horfir eingöngu á verndargildi og verðmæti viðkomandi svæða og leggur til eftir atvikum vernd á grundvelli þess. Rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls og jarðvarma tekur hins vegar verndargildið og sérkenni svæðanna sem einn þátt af nokkrum sem eru vegnir saman á móti nýtingargildi og hagkvæmni þess að virkja eða nýta viðkomandi svæði o.s.frv.

Báðir þættirnir eru á sinn hátt mjög gildir og þurfa að vera til staðar. Í hinum besta heimi allra heima höfum við allar þessar upplýsingar og allan þennan samanburð í höndunum. Við höfum hreina óblandaða verndarhagsmuni, mat á svæðum og verndargildi þeirra út frá sérstöðu, einkennum og hversu mikilvægir þeir eru í anda náttúruverndarlaganna en við höfum auðvitað líka listun á nýtingarmöguleikum og virkjunum þar á meðal til þess að hægt sé að taka einhverjar vitrænar ákvarðanir um þessa hluti. Það getum við í raun og veru ekki í dag.

Hið sorglega í málinu er í ljósi alls þess sem hefur verið að gerast og er mögulega fram undan, ef ekki tekst að afstýra því, að okkur skortir í raun grundvöllinn til að taka þessar ákvarðanir. Hann er ekki til staðar. Það hafa meira að segja stjórnvöld viðurkennt með vinnunni sem er hins vegar ekki unnin, að klára rammaáætlun og fylgja fram náttúruverndaráætlun.