133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:44]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu ásamt þeim sem hafa talað á undan mér nema hv. annar ræðumaður í umræðunni. Ég ætla ekki að segja mikið annað en þeir hafa sagt, þeim hefur mælst vel og hafa komið fram með flesta þætti í þessu máli sem þurfa að koma fram.

Ég vil líka þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þátttöku í umræðunni en hann er sá eini sem hefur talað í henni úr öðrum flokkum. Það vekur auðvitað strax athygli að stjórnarflokkarnir skila auðu í umræðu um þetta mál. Formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem einnig er formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og situr þar með báðum megin borðs og öllum megin í umræðum um náttúruvernd og orkunot, er ekki staddur hér og tekur ekki þátt í þessari umræðu þó að hann hafi farið ýmsum orðum um þessa tillögu áður í samfélaginu. Það gera heldur ekki aðrir í umhverfisnefnd eða þeir aðrir sem hafa annars staðar sýnt nokkurn áhuga á stefnu Samfylkingarinnar í umhverfis- og iðjumálum.

Ég ætla aðeins að fara yfir helstu þætti í þingmáli okkar. Það er auðvitað þannig þegar litið er á íslenska náttúru og þau þáttaskil sem nú eru að verða, bæði í umgengni við hana og umhugsun um hana, að menn taka eftir því að lagarammi um náttúruvernd er út af fyrir sig ágætur eins og m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti í ræðu sinni. Náttúruverndarlögin eru mjög sæmileg eftir síðustu endurskoðun þótt þau megi bæta og hugsunin að baki náttúruverndaráætlun er nútímaleg og mjög þörf. Framkvæmdin er hins vegar í handaskolum og styrkja þarf stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi, m.a. í skipulagsmálum og landnýtingarmálum. Ef þau væru komin í lag væri hægt að láta þann lagaramma sem fyrir er um náttúruverndina ganga. Þetta er sagt með nokkuð bírókratískum hætti um það að við stöndum frammi fyrir mikilli hættu gagnvart íslenskri náttúru þar sem stjórnvöld geta, hvað sem lögum um náttúruvernd líður, haldið áfram að nýta hana með þeim hætti að ekkert verður eftir af henni, að hún eyðileggst og skemmist, en gróðinn af nýtingunni er oftar en ekki til skamms tíma, a.m.k. ef við tölum í kynslóðum.

Það þarf sérstaklega á okkar tímum að rétta hlut náttúruverndar á Íslandi gagnvart hagsmunum stóriðju. Það er ekki vegna þess að hagsmunir stóriðju séu í sjálfu sér vondir, það er auðvitað ekki svo heldur hafa þeir gengið óþyrmilega á hagsmuni náttúruverndar, ef ég má nota þau orð, gengið á náttúruna að því leyti að óafturkræft er og ekki í samræmi við þá sjálfbæru stefnu sem okkur er skylt að hafa uppi núna, sem þeirri kynslóð sem nú lifir er skyldara að hugsa um en nokkrum öðrum kynslóðum sem búið hafa á landinu. Við þurfum í þessu samhengi að búa til nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar sem við vitum nú meira um en áður og getum betur metið en áður og í samræmi við tilfinningar þjóðarinnar til landsins, því að tilfinningar í þessu samhengi ber að virða og þær eiga að sjálfsögðu að vera ein af undirstöðunum í því hvernig menn móta umgengni, varðveislu, vernd og nýtingu náttúrunnar.

Þegar við í Samfylkingunni gengum að þessu verki gerðum við það auðvitað í tengslum við jafnaðarstefnuna. Við höfum, eins og aðrir ræðumenn hafa hér sagt, myndað okkur þrjár grundvallarforsendur. Í fyrsta lagi þá forsendu að þjóðin eigi saman náttúru Íslands. Í öðru lagi þá forsendu að kynslóðirnar verði ekki greindar í sundur að þessu leyti, að okkar kynslóð eða kynslóðum sé skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur og nýting náttúrunnar verði að taka mið af því. Í þriðja lagi þá hugsun jafnaðarmanna að við Íslendingar eigum ekki Ísland. Við erum hins vegar gæslumenn Íslands, við erum ábyrgðarmenn landsins og við berum ábyrgð á sérstökum náttúruverðmætum Íslands gagnvart öllu mannkyni.

Á þessum grunni gengum við síðan til þessarar stefnumótunar, til rammaáætlunarinnar, með tillögu um frestun á framkvæmdum, stóriðjuframkvæmdum, bæði virkjunarframkvæmdum og einstökum öðrum framkvæmdum á náttúrusvæðum sem ekki hafa verið skoðuð, m.a. vegaframkvæmdum sem hér eru nokkuð umrædd, og síðan til annarra hluta stefnunnar um Fagra Ísland sem er áætlun um loftslagsmál og sem er stefna um aukin áhrif almennings og bætta réttarstöðu hans í umhverfismálum, að ógleymdum tillögum okkar um níu sérstök svæði eða náttúrustaði sem við viljum láta vernda strax og þarf litla rannsókn um. Eins og menn vita eru þau svæði Langisjór og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum sem við leggjum til að verði lagt inn í Vatnajökulsþjóðgarð og fylgir því miður ekki þeim tillögum sem núna eru uppi um hann, og tillaga um að stækka friðlandið í Þjórsárverum og um að tryggja friðun Skjálfandafljóts, jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.

Þetta er í ákaflega stuttu máli kjarninn í tillögum okkar í þessu efni, sú sátt sem við berum fram til sigurs á þinginu og í kosningabaráttunni í vor og viljum skapa um bandalag almennings og stjórnmálaafla sem breytt geti stöðunni náttúruvernd og tilfinningum þjóðarinnar í hag af ráðherrabekkjunum í næstu ríkisstjórn.