133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:15]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég á stutt og einfalt erindi í stólinn og það er að lýsa stuðningi við þetta mál með þeim rökum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur tínt fram og það kemur svo sem ekki á óvart því ég er einn flutningsmanna. Ég vil segja það hér að með sama hætti og króna Kristjáns IX. minnir okkur á upphaf þessa húss og löggjafarþings þess og áður ráðgjafarþings sem stofnað var í Reykjavík 1845 og 1874 þá er viðeigandi að í þingsalnum séu tvær táknmyndir, annars vegar Jóns Sigurðssonar forseta, sem enn er helsta hetja í sögu þingsins, og hins vegar íslenski þjóðfáninn, fáni íslenska lýðveldisins sem hér var stofnað á Alþingi.

Ég tek undir þær óskir sem hafa komið fram um að málið gangi til síðari umræðu og ég tel að allsherjarnefnd sé torvelt að neita þeirri ósk þegar flutningsmaður er 31 og einn þingmaður til, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, bættist við í umræðunum áðan. Hér er því hreinn meiri hluti Alþingis sem annaðhvort flytur málið eða styður það án flutnings. Það hlýtur að verða til þess að málið kemur til síðari umræðu og verður væntanlega samþykkt. Það væri líka verðskuldaður heiður þeim sem flutt hefur málið fimm sinnum og nú í sjötta sinn en er á leiðinni út af þingi, er að ljúka þingstörfum og verður harmfari þeim sem hér hafa setið með honum. Svo er, forseti, að guð einn mun ráða hvar við dönsum næstu jól en ef þetta verður ekki samþykkt á þessu þingi þá heiti ég því, ef ég fæ nokkru ráðið, að málið verði til lykta leitt þótt síðar verði.