133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

áfengislög.

44. mál
[18:24]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum, en ásamt mér flytja þetta mál hv. þm. Mörður Árnason, Þuríður Backman, Dagný Jónsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Kristjánsson.

Þetta mál hefur áður komið fyrir þingið en ekki fengið afgreiðslu og er því lagt fram að nýju. Í íslenskum lögum er bann við auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum en eins og menn þekkja er hvort tveggja að menn hafa fundið göt í lögunum sem þeir hafa nýtt sér og einnig er á hitt að líta að lög þessi eru brotin án þess að menn séu að nýta sér einhverjar sérstakar smugur í lögunum. Og það er að mínu mati komið til vegna þess að lögin eru að sumu leyti óskýr. Menn fóru að nýta sér smugurnar sem þar er að finna og þegar ekki var fundið að því eða menn látnir sæta ábyrgð þá færðu menn sig upp á skaftið og brutu lögin.

Með þessu frumvarpi erum við að leggja til að farin verði svipuð leið og Norðmenn fóru, þeir breyttu orðalagi sinna laga þannig að þeir lokuðu öllum smugum. En eins og menn þekkja er bjór hér auglýstur sem bjór en einhvers staðar í auglýsingunni er að finna agnarsmáa stafi sem segja að ekki sé um áfengan drykk að ræða. Og með þessu frumvarpi, ég ætla ekki að fara í hinar lagatæknilegu hliðar málsins en hugsunin er sú að ef menn eru á annað borð með áfengan drykk þá verði hann greinilega aðgreindur hinum óáfenga. Út á það gengur þetta frumvarp. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til skýrslu sem kom út á vegum ríkislögreglustjóra á árinu 2001 og þar var þetta ein sú leið sem nefnd var til að stoppa upp í íslensku lögin.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, það er óþarfi. Ég held að það sé mjög skaðlegt að vera með lög sem ekki er farið eftir, sem ekki er hlýtt og ég hef oft undrað mig á ábyrgðarleysi bæði framleiðenda og söluaðila sérstaklega bjórs og reyndar annarra áfengra drykkja líka, að þeir skuli ekki vera reiðubúnir að virða landslögin. Eins má sæta furðu að íslenskir fjölmiðlar sjái ekki sóma sinn í að koma í veg fyrir að síður þeirra eða skjárinn sé notaður til þess að koma á framfæri ólöglegum auglýsingum eða a.m.k. auglýsingum sem eru á mjög gráu svæði og það á ekkert síður við ríkissjónvarpið en aðrar sjónvarpsstöðvar og það á við um dagblöðin flest, þó skal ég ekki fullyrða um það efni.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þetta mál fari til, að öllum líkindum efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og komi síðan til atkvæðagreiðslu fyrir þinglok. Það er óþolandi að mál af þessu tagi sé látið velkjast í þinginu árum saman án þess að þingið fái tækifæri til að segja hug sinn. Nú er komið að því að afgreiða þetta mál.