133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

áfengislög.

44. mál
[18:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum, og er þarft og gott mál. Í 20. gr. áfengislaganna segir svo, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.“

Ég hef áður komið í ræðustól, ég man ekki hvort það var af þessu tilefni en ég minnist þess að ég hef komið í ræðustól vegna fyrirspurna sem Mörður Árnason hefur lagt fram varðandi þessar auglýsingar. Þar innti þingmaðurinn dómsmálaráðherra eftir því hvort ekki ætti að bregðast við því þegar menn væru að auglýsa áfengi með svo augljósum hætti en feldu sig á bak við það að þeir væru kannski ekki að auglýsa áfengi í þeim skilningi orðsins heldur einhvers konar óáfenga drykki eða drykki með litlu áfengismagni.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það hefur oft farið í taugarnar á mér að sjá svona auglýsingar. Það er svo augljóst að verið er að fara í kringum lögin, menn dansa á línunni og ég tel að þeir séu að fara yfir línuna með þessum auglýsingum. Það er nefnilega þannig að það eru lög í þessu landi. Lagabókstafurinn er alveg skýr og ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við á hinu háa Alþingi veitum það aðhald að hér sé farið að lögum.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hafa Norðmenn tekið á þessu þannig að menn geta ekki auglýst vöru með þessum hætti, þ.e. látið í veðri vaka að þeir séu að auglýsa léttöl eða pilsner en eru í raun og veru að auglýsa bjór. Ég tel að þetta sé ágætt mál og ég styð þetta frumvarp þó að ég sé ekki flutningsmaður þess þá styð ég það vegna þess að ég tel hreinlega ótækt að þetta sé látið líðast. Það er líka þannig að þegar menn fara að brjóta lögin með þessum hætti þá færa þeir sig sífellt upp á skaftið með hverju árinu sem líður og það leiðir náttúrlega til þess að sá lagabókstafur sem við höfum í áfengislögunum — og það er alveg auðséð af orðanna hljóðan í lögunum hvað hefur vakað fyrir löggjafarvaldinu á þeim tíma þegar lögin voru sett — það er alveg augljóst að það er verið að brjóta þessi lög. Ég tel því að það væri gott mál að þetta frumvarp yrði afgreitt þannig að það yrði tekið á þessu.

Hins vegar er annað mál hvort það eigi að leyfa áfengisauglýsingar yfir höfuð eða ekki. Ég tel að það eigi ekki að leyfa áfengisauglýsingar. Ég tel að fyrirkomulagið eins og það er núna sé ágætt en ég tel einnig, eins og reynslan hefur sýnt, að það sé kominn tími til að tekið verði á þessu tiltekna vandamáli, virðulegi forseti.