133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

áfengislög.

44. mál
[18:32]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að þakka hinar góðu undirtektir við málið. Ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni í þeirri afstöðu hans að lög eiga að gilda. Ég er sammála honum um að það eigi að banna áfengisauglýsingar enda væri ég ekki flutningsmaður að málinu ella. Ég held að það sé framtíðin líka. Menn tala stundum um þetta sem einhvers konar gamaldags viðhorf. Það er það þvert á móti. Hið gagnstæða er uppi. Þetta er það sem mun verða í framtíðinni, að því er ég hygg. Fremur vildi ég að menn kæmu fram og leyfðu auglýsingar á áfengi og við hefðum þá hreinar línur og farið væri eftir þeim lögum sem eiga að gilda í landinu. Það væri skömminni skárra en það ástand sem við búum við nú að lögin eru ekki virt. Það er slæmt ástand.