133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[18:58]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Nú ræðum við vegamál og hálendisvegi og það er ánægjulegt að verða vitni að því að hv. þm. Halldór Blöndal skuli halda uppi þessari umræðu í framhaldi af umræðu sem var í morgun í Útvarpi Sögu en þar var forstjóri Bónuss, Jóhannes Jónsson, einmitt að ræða þessa möguleika, hvernig leggja ætti vegi í framtíðinni. Ég get ekki betur heyrt en að hv. þingmaður sé hér að halda áfram með þá umræðu sem fram fór í Útvarpi Sögu og rekur hér erindi fyrir þessu máli og það er gaman að sjá hvað þessir menn geta verið samstiga í þessu máli og eflaust í fleiri málum.

Það er rétt að hafa í huga þegar við ræðum vegamál að þá er auðvitað rétt að skoða hvar við ætlum að leggja vegi og hvar við ætlum að hafa áherslurnar í framtíðinni. Mér finnst réttmætt að skoða þessar leiðir ef þær verða ekki til þess að taka vegafé af annars staðar. Mér finnst það ekki vera forgangsatriði fyrir opinbert fé að fara þessa leið og það segi ég vegna þess að ástand vega víða núna býður ekki upp á að farnar séu nýjar leiðir. Vegir eru víða varasamar og illfærir. Ég fékk nýlega símtal frá ágætri konu í Vatnsdalnum þar sem hún sagði að vegurinn frá bænum Bakka og út í kaupstaðinn væri illfær. Ég spyr: Eigum við ekki að tryggja að fólk geti komist heim til sín áður en við förum í nýjar leiðir um hálendið? Ég fæ ekki séð betur en að við eigum einmitt að leggja áherslu á þokkalegar samgöngur til allra staða og ef menn ætla að fara í þessar leiðir, hvort sem það er hv. þm. Halldór Blöndal eða Jóhannes Jónsson í Bónus sem vilja það, verði það a.m.k. ekki til þess að skerða það fé sem fer til vegamála.

Við verðum að líta til þess að hér er um alvörumál að ræða. Á síðasta ári var oft rætt um alvarleg slys, jafnvel banaslys á þjóðvegunum. Við í Frjálslynda flokknum leggjum aðaláherslu á að gerð verði gangskör að því að bæta umferðaröryggi á vegum landsins. Það á að vera fyrsta verkefni okkar að fækka banaslysum, fækka einbreiðum brúm. Þangað eigum við fyrst og fremst að horfa og einnig á það að fólk komist heim til sín, hvort heldur það er Didda á Bakka í Vatnsdal eða fólk sem þarf að komast vestur á firði eða í vinnuna á milli staða eins og frá Akranesi til Reykjavíkur. Þetta eiga að vera forgangsverkefni, umferðaröryggið og að fólk komist í raun og veru á milli staða.

Síðan er vert að skoða þessar hugmyndir þeirra Jóhannesar Jónssonar og hv. þm. Halldórs Blöndals að fara yfir hálendið, skoða þær leiðir og að það verði tryggt að það verði ekki til þess að skerða vegafé. Ef við lítum á útgjöld til vegamála á síðustu árum, hvernig núverandi ríkisstjórn hefur hegðað sér, þá kemur berlega í ljós að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur stutt með ráðum og dáð, hefur hegðað sér með mjög óábyrgum hætti þegar kemur að útgjöldum til vegamála. Útgjöldin eru ekki til langs tíma, þó svo að sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér sé að mörgu leyti framsýn, það er alls ekki að sjá í verkum ríkisstjórnarinnar vegna þess að þar er bara horft til næstu kosninga.

Það er athyglisvert þegar skoðuð eru útgjöld ríkisins til vegamála, sem upplýsingaþjónusta Alþingis tók saman fyrir mig, að það er ákveðinn taktur í þeim. Á kosningaári eru útgjöldin til vegamála 4,5% af útgjöldum ríkisins en eftir kosningar dregur jafnt og þétt úr þannig að árið eftir, 2004, eru þau 3,8%, 2005 eru þau 3%, 2006 eru reyndar tvær tölur, 2,8% og 2,3%, og það er vegna þess að þá voru ákveðnar aðgerðir í gangi hjá ríkisstjórninni til að berjast við þenslu sem stóðu yfir tvær, þrjár vikur, svokölluð Haarde-áætlun sem stóð ekki lengi. En á árinu 2007 eru breyttir tímar, þá er skyndilega slegið í og ríkisstjórnin boðar aukin útgjöld til vegamála. Verk ríkisstjórnarinnar eru þannig að það er alltaf dregið úr en svo þegar kemur að kosningum þá er gefið í.

Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að reyna að sporna við þessu að einhverju leyti og horfa eitthvað fram á veginn en ég er á því að hér sé kannski horft eilítið of langt fram á veginn, miðað við það ástand sem blasir núna við á vegum landsins, eins og t.d. hjá fólkinu í Vatnsdal sem kemst varla heim til sín nema á jeppum. Þetta á ekki að þurfa að vera svona. Þegar maður horfir upp á umferðarhnúta, fólk sem þarf að fara ofan úr Breiðholti í vinnu að morgni til og það kemur hálka eða snjór þá tekur slík ferð kannski þrjú korter. Við verðum að líta á forgangsverkefnin sem eru auðvitað þau að fólk komist á milli staða og svo umferðaröryggið. Svo mega verkefni sem þetta gerast í framtíðinni, verkefni sem eru í sjálfu sér góðra gjalda verð ef þau skerða ekki þau verkefni sem ég nefndi fyrst, þ.e. umferðaröryggi og að tryggja greiðar samgöngur.

Ég læt hér ræðu minni lokið um þessa ágætu þingsályktunartillögu hv. þingmanns.