133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:14]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það sem ég áður sagði að hér er einungis verið að tala um það að tengja tvo landsfjórðunga. Samkvæmt þeim vegalögum sem nú eru í nefnd liggur það fyrir að slík einkaframkvæmd eins og hér er verið að tala um skuli ekki um alla framtíð vera í eigu þess félags sem stofnað er um framkvæmdina. Þetta var einmitt einn af þeim ásteytingarsteinum sem upp komu í sambandi við Hvalfjarðargöngin að ég taldi, og ríkisstjórnin, að samningarnir hefðu verið of rúmir sem gerðir voru í tíð vinstri stjórnarinnar við Spöl um þá jarðgangagerð, að við styttum þann tíma og takmörkuðum möguleika Spalar hf. til að reka veginn áfram eftir að allur kostnaður hefði verið greiddur. Í samræmi við þá stefnu sem ég markaði þá og þá nýju samninga sem á þeim tíma voru gerðir við Spöl er ég að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að vegir eins og Kjalvegur eigi síðan að ganga til ríkisins. Það er líka sú hugsun sem er á bak við jarðgöng undir Vaðlaheiði. Svo það sé alveg skýrt og þarf ekki að snúa út úr því.

Ég ítreka það sem ég sagði áður að þegar ráðist er í vegaframkvæmd eins og þessa er auðvitað nauðsynlegt að skipulag liggi fyrir og síðan eru það sveitarfélögin sem gefa framkvæmdarleyfi. Þetta mál yrði því í höndum sveitarfélaganna. Ég vona að hv. þingmaður fari ekki að leggjast gegn vilja Skagfirðinga eða Sunnlendinga í þessu sambandi.