133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:23]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Hér er verið að ræða þingsályktunartillögu um hálendisveg um Stórasand. Mér finnst tilhlýðilegt að koma aðeins inn í þá umræðu.

Fyrst vil ég segja að mér finnst afar eðlilegt að við ræðum það hvort ekki sé rétt nú á þeim tímum sem við ræðum samgöngumál að tala einmitt um aðrar samgöngur en bara með ströndum landsins. Við þekkjum það að við erum eyja í Atlantshafi og við höfum fyrst og fremst átt okkar samgöngur fyrr á öldum með skipum við aðrar þjóðir. Síðan urðu samgöngurnar með ströndinni. En til eru gamlar þjóðleiðir sem voru nýttar og á sumum landshlutum eru þær enn þá nýttar sem þjóðleiðir, eins og vegurinn yfir Hellisheiði, um Svínahraun og Hellisheiði. Þar er myndarlegur og greiðfær vegur í dag sem þarf að vísu að bæta.

Síðan er það gömul þjóðleið sem menn þekkja og hún er um Kjöl sem tengir saman Suður- og Norðurland. Þetta er þjóðleið sem er sennilega um 1100 ára gömul sem menn fóru bæði gangandi og ríðandi og menn gera enn þann dag í dag. Á þeirri leið er í dag niðurgrafinn malarvegur með tilheyrandi beygjum og hlykkjum og ekki lagður með nútímaökutæki í huga, heldur var miðað við þann farm sem þá var verið að flytja á þeirri leið. En ég held að full ástæða sé til þess, hæstv. forseti, um leið og við ræðum þingsályktunartillöguna um Stórasand, að ræða svolítið um þá gömlu leið því að nú eru hugmyndir uppi að leggja veg yfir Kjöl sem mundi liggja frá Gullfossi og niður í Skagafjörð að Silfrastöðum. Þannig mundi sá vegur tengja saman byggðirnar á Norðurlandi, þ.e. Eyjafjarðarsvæði, og með fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum, sem munu koma, nær hann austur í Mývatnssveit og að Húsavík og með tilkomu álvers þar mun aukning umferðar verða mikil á þeirri leið. Vegur að norðanverðu tengist náttúrlega í Skagafjörðinn og við þær byggðir. Síðan er tengingin að sunnanverðu í Árnesþing, niður í gegnum hinar ýmsu leiðir sem liggja í Árnesþingi. Þannig verður til lítill hringvegur sem er vestur um land og svo aftur um Kjöl og síðan hin leiðin sem er austanmegin og þannig verða tveir hringir á landinu.

Sú framkvæmd sem menn hafa verið að undirbúa og kynna varðandi Kjöl gerir ráð fyrir að verða í svokallaðri einkaframkvæmd sem við þekkjum í dag, eins og gert var þegar göngin um Hvalfjörð voru grafin. Fyrirtækið Spölur gerði það og samþykkt voru sérstök lög á Alþingi um það verk.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um vegalög þar sem gert er ráð fyrr að hægt sé að semja beint við samgönguyfirvöld um slíkar einkaframkvæmdir. Það er einmitt með það í huga sem hópur fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og einstaklinga hafa lagt fram hugmyndir og fengið til liðs við sig rannsóknardeild Háskólans á Akureyri, sem hefur gert umferðarspá sem lítur mjög vel út hvað þessa framkvæmd varðar. Rannsóknardeildin við Háskólann á Akureyri hefur jafnframt gert ákveðna úttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að leggja veg milli Suður- og Norðurlands um Kjöl. Þær niðurstöður sem þar virðast liggja fyrir eru mjög jákvæðar. Ég tel því að við eigum klárlega að halda áfram þeirri skoðun hvort ekki sé rétt að fara í framkvæmd hálendisvega á Íslandi. Þá er ég fyrst og fremst með í huga veginn yfir Kjöl. Þar þekkjum við býsna vel hvernig veðurfar er, býsna vel, segi ég, og hvernig snjóalög eru og það helgast m.a. af þeim veðurathugunarstöðvum sem eru á þeirri leið, ekki síst þeirri veðurathugunarstöð sem er á Hveravöllum, en hún er búin að vera þar nokkuð lengi á vegum Veðurstofu Íslands. En augljóst er að mikill áhugi er, bæði norðan- og sunnan heiða, með að þessi veglagning geti orðið að veruleika. Menn sjá gríðarleg atvinnutækifæri beggja vegna vegarins, sérstaklega hvað varðar ferðaþjónustuna og þess vegna held ég að enn brýnna sé að við skoðum þetta af fullri alvöru.

Í nýlega samþykktri byggðaáætlun, sem samþykkt var í fyrravor á Alþingi, kemur fram að einn af árangursríkustu þáttunum sem við höfum áhrif á varðandi byggðamálin eru annars vegar menntamál, aðgengi að menntun og svo samgöngumálin. Hér er um að ræða mikla samgöngubót og ég held að við eigum, herra forseti, að huga verulega að umræddri leið, jafnframt því að skoða aðrar leiðir kunni þær að vera betri, annars vegar fjárhagslega eða hagkvæmari á einhvern annan hátt. Þess vegna finnst mér alveg eðlilegt að menn skoði þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og fullkomlega eðlilegt að þessi mál séu skoðuð samhliða, ekki síst fyrir þann mikla áhuga sem liggur beggja vegna þessa vegar sem ég hef hér nefnt, sem liggur ekki á þeim sama stað og Stórasandsleiðin. Ég tel fullkomlega eðlilegt að við skoðum þessar leiðir og sjáum hvort við náum ekki saman um hvaða leið best er að fara.