133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afnot af Ráðherrabústaðnum.

488. mál
[12:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Svo bar til að laugardaginn 30. september birti Fréttablaðið á forsíðu mynd af þingmönnum Framsóknarflokksins sem voru staddir í Ráðherrabústaðnum. Sá texti fylgdi með að þeir væru þar að heiðra í nafni þingflokksins fyrrverandi ráðherra. Við þetta er auðvitað engar athugasemdir að gera. Það var huggulegt af þingflokki að heiðra fyrrverandi ráðherra, og séu þeir sem oftast heiðraðir.

Það vakti hins vegar athygli mína að þingflokkurinn var samankominn í Ráðherrabústaðnum en ég vissi ekki að þar væru sérstök tengsl á milli. Eftir að upplýsingar um það voru óljósar í blöðum lagði ég fram fyrirspurn 10. október til forsætisráðherra um ráðstöfun Ráðherrabústaðarins, og fékk svar við henni 1. nóvember.

Þar kom fram að afnot af bústaðnum eru eingöngu heimil að fengnu leyfi forsætisráðuneytisins og líka að ráðuneytum eru heimil afnot með því skilyrði að ráðherra haldi gestaboð eða fundi, annars ekki, sem sé ekki þannig að ráðuneytisstjóri geti pantað Ráðherrabústaðinn fyrir starf í ráðuneytinu. Það verður að vera ráðherra.

Í þriðja lagi kom fram að ráðuneytin greiða ekki sérstaklega fyrir afnot af bústaðnum enda gert ráð fyrir að þar sé ráðherra í embættiserindum hverju sinni og afnot af bústaðnum eru því á sameiginlegum reikningi ríkisstjórnarinnar og greiðist í forsætisráðuneytinu.

Af þessu spunnust líka tíðindi, þó ekki mjög upplýsandi af hálfu þingflokks Framsóknarflokksins. Þess vegna fæ ég nú það svar við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir nokkru um hvaða ráðherra voru heimiluð afnot af Ráðherrabústaðnum að kvöldi föstudagsins 29. september 2006, sem hér mun hafa verið um að ræða samkvæmt frétt blaðsins.

Og síðan hvort ráðherra telji eðlilegt að ráðherra haldi fundi eða gestaboð í Ráðherrabústaðnum á vegum aðila utan Stjórnarráðsins, t.d. þingflokks?