133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

varnarsvæði á Miðnesheiði.

526. mál
[12:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra:

„1. Er til skýrsla hjá ráðuneytinu um mögulega nýtingu varnarsvæðisins á Miðnesheiði og ástand mannvirkja þar og, ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður hennar um mögulega nýtingu svæðisins?

2. Hefur ráðherra upplýsingar um hvenær nýting mannvirkja á varnarsvæðinu hefst og hver hún verður?“

Það blasir við að yfirgefið varnarsvæðið á Miðnesheiðinni býður upp á gífurlega mörg tækifæri til atvinnu- og þjónustuuppbyggingar á Suðurnesjum, gríðarleg tækifæri og einstök. Þar skiptir langmestu máli að nota tímann vel. Herinn fór í september og frá því í byrjun október hefur þorpið staðið autt. Það er mat allra þeirra sem hafa komið að vinnu við að endurnýta yfirgefin hernaðarmannvirki að öllu máli skipti að gera það eins hratt og kostur er. Það hefur dregist. Það er að sjálfsögðu vinna í gangi, Þróunarfélagið hefur auglýst eftir hugmyndum o.s.frv. Það skiptir mjög miklu máli að hæstv. ráðherra gangi þannig fram í málinu að nýting hefjist hið fyrsta.

Fyrst og fremst er um að ræða atvinnu og þjónustu hvers konar. Það liggur fyrir að íbúðirnar verða ekki settar á almennan markað enda mundi húsnæðisverð á svæðinu væntanlega hríðfalla eða hrynja. Margar hugmyndir hafa heyrst um notkun á þorpinu sem þekkingarþorpi, hugvitsstarfsemi hvers konar, skólastofnanir hafa heyrst nefndar í því sambandi. Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor á Bifröst, hefur heyrst nefndur í sambandi við mögulega skólauppbyggingu á svæðinu. Því hefur verið fleygt að það sé upplagt að hluti af deild, t.d. jarðvísindadeild, verði flutt þarna upp eftir o.s.frv. Og þá að sjálfsögðu flugsækin þjónusta af hvaða tagi sem er. Það verða til yfir 100 störf á ári hjá flugstöðinni nú þegar og fyrirsjáanlegt er að störfum fjölgi mjög og þjónusta aukist þar í kring þannig að tækifærin blasa við.

Við þurfum að nýta tækifærin. Þetta er einstakt tækifæri til að byggja upp kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf fyrir fólk með ólíka menntun á þessu svæði. Sprotarnir eru fjöldamargir til að byggja upp fjölbreytt störf fyrir bæði langskólagengið fólk og fólk með skemmri skólagöngu. Þau tækifæri þurfum við að nýta og ganga mjög hratt til verka. Fríverslunarsvæði hefur verið nefnt, vörur yrðu fluttar inn á svæðið án tolla og skatta frá einum stað og sóttar á öðrum stað, íhlutir fluttir inn og settir saman, uppskipunarhöfn. Hugmyndirnar eru gífurlega margar. Það skiptir máli að vinna hratt og örugglega úr þeim og því beini ég þessum fyrirspurnum til hæstv. utanríkisráðherra.