133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

varnarsvæði á Miðnesheiði.

526. mál
[12:42]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft góðu máli, sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr hæstv. utanríkisráðherra út í, þ.e. um notkun á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Ég held að stigin hafi verið ágætisskref með stofnun þróunarfélagsins sem þar er að taka við. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að ótal tækifæri eru til til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum eftir að herinn fór úr landi. Þar má nefna ótal dæmi eins og hv. þingmaður gerði. Í mín eyru hefur verið nefnt hvort ekki væri ástæða til að athuga það að Háskólinn í Reykjavík flytti í Reykjanesbæ. Hann færi þá inn á svæði þar sem allt er til staðar til skólahalds, svo sem íþróttaaðstaða, sundlaug, námsmannaíbúðir og ég veit ekki hvað.

Virðulegi forseti. Ótal fleiri dæmi eru til en allra sísti kosturinn er sá sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ berst hvað mest fyrir núna, þ.e. bygging álvers í Helguvík. Ég held að það sé það allra vitlausasta sem gert yrði á Suðurnesjum. Ég er algjörlega andvígur því að álveri verði plantað niður á sömu lóð og stálverksmiðja og ótal önnur fyrirtæki eiga að koma á.