133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

533. mál
[12:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2005 voru 2.100 manns tekin af lífi í 21 landi. Á sama ári voru 5.200 manns dæmd til dauða í 53 löndum. Þess má geta að nú er talið að um 20.000 manns í veröldinni allri bíði þess að verða tekin af lífi í kjölfar þess að hafa verið dæmd til dauða. Þess má geta að um 94% af aftökunum fara fram í fjórum löndum: Kína, Íran, Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum. Árið 2005 eru opinberu tölurnar um aftökur í Kína t.d. 1.770 en Amnesty International heldur því fram að þær aftökur gætu í raun verið margfalt fleiri, reyndar allt að 8.000.

Þetta er hörmuleg staða, virðulegi forseti, þar sem dauðarefsingar ættu að sjálfsögðu að heyra löngu liðinni og myrkri tíð, villimennsku fortíðar þar sem misþyrmingar og óréttlæti viðgengust fyrir mörgum öldum síðan. Slíkar refsingar eru hrein tímaskekkja og í andstöðu við réttarríkið að mínu mati.

Umræðan um réttmæti dauðarefsinga hefur farið sem eldur í sinu eftir aftökuna á Saddam Hussein fyrir nokkru. Þeim viðbjóðslega atburði var að sjálfsögðu sjónvarpað um allan heim. Hann flaug inn á netið á leifturstundu og vakti upp þessa umræðu. Ban Ki-moon nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna leggur m.a. til að aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna beiti sér fyrir alþjóðlegu banni við dauðarefsingum. Að sjálfsögðu vil ég nota tækifærið og óska eftir því að íslensk stjórnvöld leggi nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna lið í að berjast fyrir þessu mesta mannréttindamáli okkar tíma, að setja alþjóðlegt bann við dauðarefsingum. Þær eru andstyggilegar og í hreinni andstöðu við nútímalegt réttarríki, lýðræði og mannréttindi.

Þá má geta þess að forsætisráðherra Ítalíu, sem þar fer fyrir vinstri stjórn, Romano Prodi, hefur lagt til alþjóðlegt bann við dauðarefsingum og mun beita sér sérstaklega fyrir slíku banni.

Að lokum, áður en ég beini fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra vitna ég í forustugrein Morgunblaðsins frá því fyrr í haust þegar Morgunblaðið segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld eiga að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir því að dauðarefsingin verði einnig gerð útlæg annars staðar í heiminum.“

Ég tek heils hugar undir það um leið og ég beini fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra:

„Hefur ráðherra beitt sér fyrir alþjóðlegu banni við dauðarefsingum? Er í undirbúningi að vinna slíku banni fylgis á alþjóðavísu? Hefur ráðuneytið lýst sig fylgjandi slíku banni?“