133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

þjóðvegur á Akranesi.

242. mál
[13:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Við vitum þá að það er undirbúningur í gangi, hönnun og útboði að mestu lokið, ekki fjárveiting á gildandi áætlun, unnið að málinu. Gott og vel.

Ég hefði þó viljað heyra, virðulegi forseti, nánar og nákvæmar frá hæstv. samgönguráðherra hvenær hann sæi fyrir sér að hægt yrði að fara í þessa framkvæmd. Það er mjög aðkallandi fyrir Akurnesinga að fá það á hreint hvenær farið verður í þessa framkvæmd og hvenær henni verði lokið. Þetta er farið að þvælast fyrir, orðinn svona hálfgerður flöskuháls eða hindrun og orðið mjög alvarlegt mál að þessum vegarkafla, þó að hann sé ekki langur, skuli ekki vera lokið, að þarna sé ekki lagt á slitlag. Þarna verður rykmengun og önnur óþægindi. Eins og ég sagði áðan, þarna er verið að byggja dýrt og mikið verslunarhúsnæði, það er verið að byggja dýr og stór hús, blokkir, fjölbýlishús, einbýlishús og annað þar fram eftir götunum og fleiri byggingar rísa þarna bráðum og þetta er orðið mjög óþægilegt.

Þetta skapar líka óþægindi fyrir þá sem ráða málum á Akranesi sem núna er meiri hluti Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokksins. Eins og hæstv. samgönguráðherra benti á er hugmyndin með þessu öllu saman sú að búa til tengingu frá hafnarsvæðinu í gegnum bæinn þannig að þungaflutningar gætu farið þar fram um og annað þar fram eftir götunum. Við höfum hugmyndir um að efla til að mynda hlutverk Akraneshafnar sem fiskihafnar, og Faxaflóahafnir hafa lýst því mjög ákveðið yfir að fiskihöfn verði byggð upp á Akranesi í framtíðinni. Það á að setja fiskmarkaðinn í nýtt hús, það er mikið í gangi, en flutningaleiðirnar inn í og út úr bænum eru alls ekki viðunandi eins og staðan er í dag.

Ég vil því nota tækifærið, virðulegi forseti, og heita á hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) að svara því hér og nú hvenær hann sjái fyrir sér að hægt verði að hefja þessar framkvæmdir.