133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur.

244. mál
[13:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Það er nefnilega full ástæða til að gefa þessu gaum. Ef menn líta svo á að hægt sé að flytja fólk töluvert langar vegalengdir standandi í strætisvögnum þurfa menn aldeilis að fara yfir þá hluti. Það er auðvitað stórhættulegt að svo sé gert. Við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að rifja upp þegar fólksflutningabíll valt við Akrafjallið. Þar höfðu menn ekki spennt á sig beltin — það voru belti í þeim bíl — og þar urðu slys á mönnum vegna þessa. Auðvitað er ekki boðlegt gagnvart öryggi að fólk standi í vögnum af þessu tagi. Það verður einfaldlega að líta þannig á að til að öryggis sé gætt þurfi bílbelti. Ef það þarf að breyta einhverjum reglum hvað þetta varðar er full ástæða til þess að menn gefi því gaum. Ég hvet til þess.