133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur.

244. mál
[13:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hans að þessi samgöngumáti á milli Akraness og Reykjavíkur hefur gefist afskaplega vel. Það er ekki langt síðan byrjað var á þessu. Möguleikarnir opnuðust náttúrlega með tilkomu Hvalfjarðarganga en þetta hefur gengið mjög vel sem af er og er vinsælt meðal fólks að nota almenningssamgöngur til að fara á milli Akraness og Reykjavíkur. Þá er líka þess heldur brýnt að þeir sem bera ábyrgð í þessum málum haldi vöku sinni og fylgist með því að þetta sé gert með sómasamlegum hætti.

Mér er kunnugt um að meiri hlutinn sem nú er á Akranesi, meiri hluti frjálslyndra og sjálfstæðismanna, hefur verið með þessi mál í skoðun. Það er verið að athuga hvort ekki sé hægt að hliðra til í ferðum þannig að sérstaklega á morgnana þegar umferðin er sem mest og farþegarnir sem flestir verði ferðum á milli fjölgað þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að fólk standi í vögnunum á milli Akraness og Reykjavíkur. Þetta er náttúrlega mjög slæmt fyrir farþegana en við megum heldur ekki gleyma bílstjórunum því að þetta hlýtur að valda bílstjórunum meira álagi en ella. Þeir hafa náttúrlega öryggi farþega sinna í huga og það bitnar á þeim ef illa fer sem við skulum vona að gerist alls ekki.

Ég vona bara að þessi fyrirspurn veki fólk til umhugsunar, ekki bara um þessar ferðir heldur einnig aðrar ferðir. Ég vona að hæstv. ráðherra hugleiði það, og við öll, þingmenn, hvort ekki sé tími til kominn að endurskoða löggjöfina með tilliti til þessa. Við verðum þá að setja strangari reglur varðandi aðbúnað farþega í strætisvögnum sem fara um þjóðvegakerfi landsins í þeim tilfellum þar sem það á við þannig að við getum aukið öryggi farþeganna. Það hlýtur ávallt að vera í fyrirrúmi, virðulegi forseti, og ég vona að (Forseti hringir.) þessi litla fyrirspurn mín sé upphafið að því að hér verði endurskoðaðar reglur og öryggið bætt enn frekar.