133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík.

284. mál
[13:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem ég lagði fram á þinginu í október um stöðuna í búsetumálum geðfatlaðra í Reykjavík frá því að Síminn var seldur og ákveðið að 1 milljarður færi til búsetumála geðfatlaðra. Það var mjög góð ákvörðun að mínu mati og það er búið að halda nokkra blaðamannafundi til að kynna ýmislegt í þeim efnum. Í haust var einn slíkur blaðamannafundur þar sem kynnt var mikil og fín vinna í málaflokknum. Þegar maður fer hins vegar að skoða hvað hefur verið að gerast í uppbyggingu — það er búið að tala mikið og blása í lúðra — hefur minna sést af framkvæmdum, þá sérstaklega í Reykjavík. Ég hef fylgst náið með þessu málum þar sem ég er í hópi aðstandenda geðsjúkra. Þar var í haust kynnt staða mála, fulltrúar komu úr félagsmálaráðuneytinu en ýmsir aðstandendur könnuðust ekki við að þær framkvæmdir sem þar voru kynntar væru nokkuð farnar af stað. Þar má m.a. nefna 12 manna sambýli á Flókagötunni sem átti að lagfæra samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem ráðherra hefur kynnt.

Það eru tvö ár síðan fólkinu sem býr á Flókagötunni var lofað að það fengi sérstakar íbúðir. Ekkert er farið að gerast í þeim málum enn þá. Ég hef spurst fyrir um þetta og síðast fékk ég 12. desember tölvupóst um það að endurbætur t.d. á Flókagötunni ættu að hefjast um áramótin. Nú er 7. febrúar og það er ekkert farið að gera enn þá þannig að ég spyr hæstv. ráðherra þar sem málið virðist hafa gengið óskaplega hægt en hugurinn er góður:

1. Hver er staðan í búsetumálum geðfatlaðra í Reykjavík?

2. Hvenær má búast við að búið verði að lagfæra húsnæðið á Flókagötu í samræmi við nýju hugmyndafræðina sem ráðherra kynnti 9. október sl.? Ég nefndi það áðan.

3. Hversu mörg búsetuúrræði verða tekin í notkun á þessu ári og árlega næstu þrjú ár?

4. Hve margir geðfatlaðir bíða nú eftir að komast í sjálfstæða búsetu í Reykjavík og hvar eru þeir sem nú bíða?

5. Hversu margir þeirra búa nú á stofnunum, og þá hvaða stofnunum, og hve margir bíða í heimahúsum?

Það virðist sem sagt allt hafa gengið mjög hægt í þessum málum og ég spyr hæstv. ráðherra hvenær hann búist við að búið verði að ráða bót á þessu og hve margir bíða eftir úrræðum í Reykjavík.