133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

jafnréttisumsögn með stjórnarfrumvörpum.

487. mál
[13:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum frá 1998 og 2004 er minnst á jafnréttisumsagnir með stjórnarfrumvörpum. Samþykkt Alþingis um slíkar umsagnir er sem sé orðin níu ára gömul eða verður það 28. maí á þessu ári. Það virðist hafa verið erfitt við að fást að koma þessu á eða gera sér grein fyrir hvernig þetta ætti að vera, þó að það hafi verið ráðherra sjálfur sem flutti tillöguna um þetta, því hann flytur þingsályktunartillögu sína í samræmi við jafnréttislögin. Þegar þetta kom næst á dagskrá þingsins árið 2001 þegar gerð var grein fyrir framgangi og árangri af framkvæmdaáætluninni í jafnréttismálum fyrir það tímabil, kom í ljós að samstarfshópur hafði verið settur niður úr nokkrum ráðuneytum til að athuga þessi mál. Hann hefur nú verið að störfum í a.m.k. sex ár.

Árið 2002 kom þetta aftur til umræðu og þá kom í ljós að samstarfshópurinn hafði ásett sér að fara í tilraunaverkefni í þessum efnum, að gera sem sé einhverjar tilraunir með jafnréttisumsagnir við einhver stjórnarfrumvörp. Ég hef ekki orðið var við þau tilraunaverkefni í störfum þingsins síðan, en tilraunaverkefnið hefur sem sé verið í gangi í fimm ár.

Árið 2004 þegar þetta kom síðast til umræðu í þinginu, af einhverju viti að minnsta kosti, gat ráðherra þess — það eru nú mismunandi ráðherrar eftir árum eins og gengur í félagsmálaráðuneytinu — að í forsætisráðuneytinu væri verið að undirbúa gátlista til að hjálpa til við tilraunaverkefnið sem samstarfshópurinn ákvað að standa fyrir um þessa jafnréttisumsögn. Þetta er orðin löng saga, níu, sex, fimm og þriggja ára. Kannski er þess að vænta að núverandi hæstv. félagsmálaráðherra geti sagt af þessu einhverjar nánari sögur en þeir aðrir ráðherrar sem hér hafa kynnt þingmönnum jafnréttisumsögnina.

Aðeins í viðbót við þá fyrirspurn sem lögð er fram vil ég spyrja ráðherrann að því með hvaða hætti honum þyki ráðlegast að koma þessu fyrir. Við erum með umsagnir frá fjármálaráðuneytinu og fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um stjórnarfrumvörp. Það er gert í krafti gamallar ríkisstjórnarsamþykktar og við erum líka með umsagnir um sum (Forseti hringir.) stjórnarfrumvörp, sérstök, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með sérstökum samningi ráðuneyta (Forseti hringir.) og sveitarfélagasambandsins, og ég vil spyrja hvernig þessu er fyrir komið. Gott væri að vita hvort ráðherrann hefur skoðanir á því.