133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fæðingarorlof.

527. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Nýlega kom fram að umboðsmaður Alþingis telji að ekki eigi að leggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til grundvallar þegar heildartekjur við fæðingarorlof eru reiknaðar út eins og gerst hefur þegar stutt er á milli fæðinga barna í fjölskyldu. Hvetur umboðsmaður til að reglugerð byggð á lögum um fæðingarorlof verði breytt því að hún hafi ekki stoð í lögum hvað þetta ákvæði varðar.

Þessi framkvæmd á fæðingarorlofslögunum skerðir verulega fæðingarorlofsgreiðslur þeirra sem í þessu lenda. Nóg er nú að hafa lengt viðmiðunartímabilið sem tekjur í fæðingarorlofi miðast við þó að ekki sé gengið enn lengra á grundvelli reglugerðar sem ekki hefur stoð í lögum. Það er fráleit túlkun að leggja fæðingaorlofsgreiðslur til grundvallar greiðslum ef tvö börn í fjölskyldu fæðast með stuttu millibili þannig að einungis sé miðað við 80% af tekjum stóran hluta tímabilsins eins og gert er við greiðslur í fæðingarorlofi, 80% af fæðingarorlofsgreiðslunum. Þannig getur munað verulega, í mörgum tilvikum nokkrum tugum þúsunda og í sumum tilvikum, hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar og fara í hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi, 480 þús., getur munað hátt í 300 þús. kr. á fæðingarorlofstímabilinu að fara í þessar reikningskúnstir sem ekki byggja á lögum eins og nú hefur komið í ljós.

Í þeirri fyrirspurn sem hér er lögð fram er spurt hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir breytingu á þeirri framkvæmd á fæðingarorlofslögunum sem lýtur að því tekjuviðmiði sem lagt er til grundvallar fæðingarorlofsgreiðslum. Staðreyndin er sú, eins og við bentum á þegar félagsmálaráðherra beitti sér fyrir að lengja viðmiðunartímabilið sem greiðslur til fæðingarorlofs eru grundvallaðar á, úr því að miða það við 12 mánuði og lengja í 24 mánuði, að það varð til þess að greiðslur í fæðingarorlofi skertust verulega. Frá því að sú breyting var gerð eru fæðingargreiðslurnar ekki 80% af launum, heldur hafa þær dregist saman og viðmiðið er raunverulega komið niður í það að fæðingarorlofsgreiðslur eru 72–74% af launum. Við þessu vöruðum við þegar þessi breyting var gerð fyrir nokkrum árum.

Það er full ástæða til að ætla að þessi breyting geti orðið til þess að feður, sem iðulega eru með hærri laun, treysti sér ekki til að taka fæðingarorlof þegar skerðingin er orðin svona mikil. Almennt er því spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir breytingu á því tekjuviðmiði sem lagt er til grundvallar fæðingarorlofsgreiðslum en sérstaklega er þó spurt um þá framkvæmd að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur séu lagðar til grundvallar í tekjuviðmiði eins og umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að gangi gegn lögunum.

Verði fallist á þessa niðurstöðu umboðsmanns Alþingis spyr ég: Geta þeir vænst þess að fá þessa ólögmætu skerðingu greidda til baka sem hafa orðið fyrir skerðingu vegna þessara ólöglegu framkvæmda? Ég hef tekið eftir að ráðherra hefur í sjálfu sér tekið undir álit umboðsmanns og það er því einfalt mál fyrir hæstv. ráðherra að breyta reglugerðinni. Ég sé ekki að þetta mál sé þess eðlis að það þurfi að fara fyrir úrskurðarnefnd fæðingarorlofsgreiðslna og ég hvet ráðherra til að (Forseti hringir.) vinda sér í að breyta reglugerðinni.