133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fæðingarorlof.

527. mál
[14:12]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hlýleg orð í minn garð í framhaldi af þessum gjörningi sem ég upplýsti um áðan. Hvað varðar þau mál sem hafa verið í gangi fram til þessa og hv. þingmaður spurði um er úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að fara yfir þau mál sem úrskurðað hefur verið í fram til þessa, eins og ég fór yfir í svari mínu, og einnig verður farið yfir þau mál önnur sem ekki voru kærð. (JóhS: Með það í huga að bæta stöðu þeirra?) Já, með í huga þá breytingu sem nú hefur verið gerð, og að í framhaldi af áliti umboðsmanns gildi jafnræði hvað það varðar. Ég veit að sú vinna er komin í fullan gang.

Hvað varðar breytinguna á viðmiðunartímabilinu ætla ég ekki að vera með yfirlýsingar um hana hér. Ég tel mjög varhugavert að vera með miklar yfirlýsingar um þessi mál, en eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hef ég og við fengið ýmsar ábendingar um þessi mál og athugasemdir sem við erum að fara yfir. Ég skipaði sérstakan starfshóp í desember til að taka það að sér að fara yfir allar þessar ábendingar, sú vinna er bara í gangi og ég get ekkert sagt til um það í raun og veru hvað muni koma út úr henni. Mér finnst meira en sjálfsagt að farið sé yfir þau mál og bara eðlileg stjórnsýsla að taka við athugasemdum sem berast varðandi framkvæmd laga, meta þær og fjalla um þær.