133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilbrigðisstofnun Suðurlands.

164. mál
[14:34]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Margréti Frímannsdóttur fyrir að fara yfir þetta mál. Það er okkur mjög hollt. Það sem ég vildi segja er að það hefur verið afskaplega ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í því að koma þeirri hugmynd á framfæri og í framkvæmd að þriðja hæðin skyldi byggð ofan á sjúkrahúsið eða við þá viðbyggingu sem nú er í gangi.

Það er rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur upplýst að tafir hafa orðið sökum þess en ég held að það sé ekki stóra málið heldur að hæðirnar, önnur og þriðja hæð, verði látnar fylgjast að og verði teknar í notkun samhliða. Þó að það þýði eins eða tveggja mánaða bið þá held ég að meira sé um vert að semja strax við þann verktaka sem er í því verki þannig að báðar hæðirnar geti opnað samtímis. Því og þá aðeins getum við flutt þá vistmenn sem eru á Ljósheimum (Forseti hringir.) því þeir eru fleiri en komast fyrir á einni hæð.