133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rekstur heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

165. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá stjórnendum þessarar stofnunar, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, á undanförnum mánuðum og árum á fundum með þingmönnum að rekstrarhallinn var hærri en þær tölur sem hæstv. ráðherra kemur hér með. Kannski er um mismunandi reikniaðferðir að ræða, t.d. sölu á húsnæði í Laugarási og e.t.v. tekur ráðuneytið það inn í til að laga rekstrartölur. Þær hafa sýnt sig vera hærri. Það er mikill halli þegar við höfum skoðað þetta með stjórnendum þessarar mikilvægu stofnunar í Suðurkjördæmi. Burt séð frá þessum tæpu 150 millj. sem eru á fjáraukalögum fyrir 2006 og þeirri hækkun sem fæst á fjárlögum er niðurstaðan samt sem áður núna sú að þessi stofnun býr við 70 millj. kr. halla. Uppsafnaður rekstrarhalli um þessi áramót er 70 millj. Einhvers staðar skeikar einhverju í þeim leiðréttingum sem þessi stofnun á að fá og telur sig þurfa að fá til að geta haldið uppi eðlilegum rekstri á því mjög svo stóra svæði sem um er að ræða og Heilbrigðisstofnun Suðurlands nær yfir.

Þetta er auðvitað hluti af því sem við ræddum áðan varðandi reiknilíkanið þar sem ákveðnar úrbætur fengust og hálf staða til að taka við þeirri þjónustu sem þarf að veita vegna frístundabyggðar. Þúsundir, líklega um 15 þúsund manns, flytja um hverja helgi búferlum á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, búa þar um helgar og nýta þá þjónustu sem til staðar er hjá stofnuninni. Þessi stofnun er undirmönnuð. Það þarf meira en hálft stöðugildi læknis til að geta sinnt þessari auknu þörf en það þarf líka að laga vinnuaðstæðurnar fyrir heilsugæsluna eins og við komum inn á áðan, sérstaklega á Selfossi í þessari nýju byggingu sem er að rísa og átti að taka í notkun 1. febrúar sl.

Rekstrarhalli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er núna um 70 millj. (Forseti hringir.) og það er bara mjög mikið fyrir ekki stærri stofnun.