133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rekstur heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

165. mál
[14:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að þjónustan sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands veitir sé mjög góð. Þar voru fyrir stuttu margar stofnanir sameinaðar í eina og slík sameining varð líka nýlega á Austurlandi þannig að nú erum við með tvær stórar heilbrigðisstofnanir, Heilbrigðisstofnun Austurlands annars vegar og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hins vegar. Að auki er umræða um að sameina víðar á landsbyggðinni. Ég tel að það verði gert í framtíðinni með einhverjum hætti þó að margir vilji fara varlega í þá vegferð.

Ég tel að þjónustan á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sé góð og að sú stofnun njóti mjög góðs af reiknilíkaninu sem hefur skilað henni hærri fjármunum inn í reksturinn, bæði í formi þess að skera niður hluta af hallanum, tæpar 145 millj. kr., og svo koma inn í grunninn 37 millj. eða svo á yfirstandandi ári sem verða inni í grunninum áfram. Auðvitað verður áfram unnið með reiknilíkanið í fjárlagagerðinni fyrir 2008 og menn munu þróa það á næstu árum.

Reiknilíkanið hefur að mínu mati skilað mjög áhugaverðum tölum og það sýnir sig að í fjárlögunum núna fyrir árið 2007 hefur rekstrargrunnur heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana hækkað um 150 millj. kr. samanlagt og það er hægt að skipta því niður á stofnanir. Ég ætla ekki að gera það í þessu stutta svari hér. Í fjáraukalögum á síðasta ári fengu stofnanir framlög sem annars vegar námu 200 millj. kr. vegna greiðsluhalla þeirra og hins vegar 520 millj. kr. vegna uppsafnaðs rekstrarvanda eða alls um 720 millj. kr. Líkanið hefur skilað heilbrigðisþjónustunni almennt að mínu mati háum upphæðum og það var eðlilegt að koma til móts við þessar stofnanir í fjárlagagerðinni núna, bæði með fjáraukalögunum og í sjálfri fjárlagagerðinni af því að þær (Forseti hringir.) gátu ekki borið þennan mikla halla sem var búinn að hlaðast upp. Nú er hins vegar búið að gera mikið átak í að klippa þessa hala af.