133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana.

166. mál
[14:56]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: Hver voru áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi og Suðurnesjum árið 2005 og það sem af er 2006? Á hvern hátt hyggst ráðuneytið bregðast við áhrifum gengisþróunar á rekstur heilbrigðisstofnana?

Því er til að svara að gengisþróun var rekstri ríkisstofnana hagstæð um nokkurt skeið en á árunum 2005 og 2006 voru áhrifin óhagstæð. Fjármálaráðuneytið reiknar áhrif verðlags á rekstrargrunn allra ríkisstofnana og þar með talin áhrif gengisþróunar. Sé það mat fjármálaráðuneytisins að bregðast þurfi við áhrifum gengisþróunar á ríkisreksturinn er það gert með því að endurmeta verðlagsþróunina fyrir allar stofnanir, jafnt heilbrigðisstofnanir sem aðrar ríkisstofnanir. Gengið hefur áhrif á verðlagsþróunina en árlega eru fjárlög hvers árs reiknuð miðað við áætlað verðlag næsta árs og jafnframt tekið tillit til þróunar verðlags liðins árs. Þannig reiknast verðlagsbætur sem hækka rekstrargrunn stofnana. Gengisbreytingar einar út af fyrir sig hafa ekki verið bættar sérstaklega en eru hluti af verðlagsþróuninni og eru þannig bættar þegar þær eru óhagstæðar og hækka verðlag, en lækka verðlag þegar þær eru hagstæðar.

Varðandi þessi gengismál almennt voru áhrifin neikvæð á síðasta ári og að hluta til á árinu þar á undan. Ég get nefnt sem dæmi að þetta sló mest út að sjálfsögðu á stærri stofnunum þar sem hæstu upphæðirnar eru nýttar. Þetta varð t.d. til þess að á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi snerist eiginlega við sú staða sem þar var, m.a. út af gengisþróuninni. Sjúkrahúsið hafði rekið sig á svipuðum upphæðum um nokkurt skeið en þar skapaðist talsverður halli á síðasta ári eins og hjá öðrum stofnunum. Gengisþróunin var alls staðar neikvæð, en ég dreg hér fram sérstaklega Landspítalann og við komum til móts við þetta, og ekki bara þetta heldur var ýmislegt annað líka sem við skoðuðum, m.a. með því að setja milljarð inn í fjáraukalögin á Landspítala – háskólasjúkrahús og svo setja annan milljarð í grunninn á yfirstandandi ári. Þetta fjármagn á m.a. að dekka þessi neikvæðu áhrif sem gengisþróunin hafði.

Þrátt fyrir að við höfum reynt að styrkja Landspítalann með þessum fjármunum stefnir í að fjárhagsstaðan þar verði erfið. Ég hef átt viðræður við forustumenn Landspítalans þar sem það er alveg ljóst að það þarf að halda mjög vel á spilunum þrátt fyrir þessa innspýtingu. Ég tel að við höfum komið ágætlega til móts við þessi neikvæðu áhrif af gengisþróuninni með því bæði að setja inn í fjáraukalög og grunninn hjá Landspítalanum sem og hjá öðrum stofnunum. Ég get þá vísað til fyrri svara minna gagnvart öðrum stofnunum. Ég get þakkað fjárlaganefnd fyrir þá vinnu sem hún fór í gegnum. Fjárlaganefndin tók til greina óskir um að taka hala af heilbrigðisstofnunum og bæta inn í grunn þeirra. Hún tók myndarlegar á því en oft áður þannig að það er búið að laga verulega til varðandi fjárhagsrekstur heilbrigðisstofnana á landinu almennt og ekki bara þessara hefðbundnu heilsugæslustofnana, heilsugæslu og sjúkrahúsa, heldur líka hjá hjúkrunar- og öldrunarheimilum. Fjárlaganefnd fór í mikla vinnu í þessu og ég get nýtt tækifærið hér og þakkað henni fyrir það.