133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilsufar erlendra ríkisborgara.

445. mál
[15:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um athuganir á heilsufari erlendra ríkisborgara. Spurning mín er svohljóðandi:

Eru gerðar einhverjar athuganir á heilsufari erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til dvalar um lengri tíma? Ef svo er, hvaða athuganir eru gerðar?

Mér leikur hugur á að fá að vita þetta vegna þess að ég hygg að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að grennslast sé fyrir um það á þessum vettvangi, á hinu háa Alþingi, hvernig þessum málum er háttað. Ég hef verið að skoða þessi mál og ég mælist til þess að hæstv heilbrigðisráðherra geri það einnig, fari til að mynda á leitarvélar helstu fjölmiðla í löndunum í kringum okkur og slái inn orðinu „tuberkulosis“ og lesi þá fréttir t.d. í norskum fjölmiðlum en líka í breskum fjölmiðlum um einmitt vágestinn berkla sem er sjúkdómur sem okkur Íslendingum tókst sem betur fer að útrýma á sínum tíma. Þar kemur m.a. fram að berklar eru því miður vandamál í löndum til að mynda í Evrópu, í Norðvestur-Rússlandi og Austur-Evrópu. Komið hafa fram tilfelli af berklum þar sem bakterían hefur myndað ónæmi gegn ýmsum lyfjum sem eru notuð í baráttunni við þennan sjúkdóm. Þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur. Það er alveg óþarfi fyrir Framsóknarflokkinn að ætla að reyna að snúa út úr umræðunni og tala um að spurningar varðandi þessar staðreyndir snúist um mannfyrirlitningu eða hatur á fólki. Það er náttúrlega alveg út í hött.

Ég vil líka benda á grein, sem birt var í SÍBS-blaðinu, nýjasta tölublaði, eftir Helga Hróðmarsson þar sem segir m.a., með leyfi forseta: „Af um 30 þúsund innflytjendum hér á landi hafa um þriðjungur eða 10 þúsund manns berklabakteríuna í sér.“

Ég reikna með því að þetta sé satt, a.m.k. stendur þetta í blaði SÍBS og SÍBS eru mjög merk samtök sem ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra kannist við, samtök sem á sínum tíma voru stofnuð til að berjast við þennan mikla vágest. Mér þætti áhugavert að fá að heyra eitthvað vitrænt frá hæstv. ráðherra um það hvað gert er í þessum efnum. Ég get t.d. bent á að víða í nágrannalöndunum eru reglur um að fólk skuli fara í skoðun til að mynda í Noregi og um það getur hæstv. ráðherra fræðst á Aftenposten.no að allir innflytjendur til Noregs þurfa að undirgangast nákvæma læknisskoðun og sérstaklega próf gegn berklum. Í Bandaríkjunum þarf fólk að skila inn bæði hreinu heilbrigðisvottorði og hreinu sakavottorði þegar það sækir um búsetu- og atvinnuleyfi í því landi og það land hefur oft verið talið mikið fyrirmyndarríki af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr, en það verður spennandi að heyra nokkur orð frá hæstv. ráðherra um þessi mál.