133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilsufar erlendra ríkisborgara.

445. mál
[15:22]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (ber af sér sakir):

Virðulegur forseti. Ég vil halda því til haga þegar ég ber hér af mér sakir líka gagnvart hv. þingmanni, að ræða formanns frjálslyndra og umræðan sem átti sér stað á landsþingi frjálslyndra fór ekki fram hjá neinum. Hún var óvinsamleg í garð útlendinga og þeir sem hlustuðu á það fundu það og gátu heyrt það á þeirri ræðu og á þeirri orðræðu sem hefur komið frá frjálslyndum um þessi mál upp á síðkastið.

Ég tel það vera skyldu mína sem heilbrigðisráðherra að benda á að við höfum ekki séð aukna tíðni sjúkdóma hér á landi þó að hingað hafi komið útlendingar. Það tel ég vera skyldu mína. Ég tel eðlilegt að ég bendi á það af því að orðræðan er þannig frá hendi frjálslyndra og frá hendi hv. þm. Magnúsar Þórs að reyna að skapa einhvern neikvæðan hjúp um þá útlendinga sem hingað koma, t.d. með því að draga það fram sérstaklega hve hátt hlutfall þeirra hefur berklasmit. Ég tel að það sé verið að ota þessum upplýsingum að fólki með óréttmætum hætti og leyfi mér að svara því, hæstv. forseti.