133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

483. mál
[15:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Spurt er hvaða aðgerða sé þörf svo að afsláttarkort vegna lækniskostnaðar berist fólki þegar hámarksgreiðslum er náð. Því er til að svara að til þess að tryggt sé að allir fái afsláttarkort þegar hámarksgreiðslu er náð þyrfti stofnuninni að berast upplýsingar frá öllum sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, sjálfstætt starfandi heimilis- og sérfræðilæknum og einkareknum rannsókna- og röntgenstöðvum um greiðslur sjúklinga. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er ekki nóg að fá þær bara frá sérfræðilæknunum.

Það skipulag sem nú er í mótun hjá Tryggingastofnun ríkisins við útgáfu afsláttarkorta byggist á því að flestir sérfræðilæknar senda núorðið reikninga sína til Tryggingastofnunar á rafrænu formi. Á grunni þeirra upplýsinga er nú sjálfkrafa útbúið afsláttarkort þegar hámarksgreiðslu einstaklings á yfirstandandi almanaksári er náð. Reikningar vegna komugjalda í heilsugæslu og á sjúkrahúsum hafa til þessa ekki verið sendir til Tryggingastofnunar einfaldlega vegna þess stofnunin tekur ekki þátt í greiðslu þess kostnaðar svo það er eðlilegt, en auðvitað viljum við breyta því.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að koma á samskiptum með reikningsupplýsingar einstaklinga frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi til Tryggingastofnunar þannig að stofnunin hefði upplýsingar um útgjöld þeirra vegna læknisþjónustu á Landspítalanum. Áður en reikningur yrði gerður á LSH yrði send inn fyrirspurn í tölvukerfi Tryggingastofnunar um tryggingalega stöðu einstaklingsins. Svarið segir svo til um hvort einstaklingur sé sjúkratryggður, bótaþegi eða hvort hann á rétt á afslætti. Í byrjun verða samskipti Landspítalans og Tryggingastofnunar eingöngu með reikninga úr Sögukerfi spítalans en það eru um 70% allra reikninga vegna sjúklinga á Landspítalanum. Áformað er að þau samskipti verði komin í gagnið í kringum 1. mars 2007. Það verður því núna bráðlega. Reikningar sem þá standa eftir eru úr öðrum upplýsinga- og rekstrarkerfum.

Unnið er að gerð áætlunar um rafræna sendingu þessara upplýsinga til Tryggingastofnunar og mun hún liggja fyrir á næstu vikum. Undirbúningsvinna stendur einnig yfir vegna sams konar samskipta heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Tryggingastofnun ríkisins. Þar verður nýtt sú vinna sem hefur farið fram í þróun rafrænna samskipta á milli Landspítalans og Tryggingastofnunar.

Gert er ráð fyrir að þegar Landspítalinn og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins verða komin með rafræn samskipti við Tryggingastofnun verði tiltölulega einfalt mál að taka upp sams konar samskipti milli Tryggingastofnunar og annarra heilbrigðisstofnana landsins þannig að þá geta menn farið að elta þá sem fyrr hafa farið fram. Ein meginforsenda þess er þó að öruggar samskiptaleiðir verði til staðar og er nú þegar unnið að uppsetningu sérstakrar heilbrigðisgáttar sem kemur til með að leysa flest rafræn samskipti innan heilbrigðiskerfisins.

Í öðru lagi er spurt hvenær Tryggingastofnun ríkisins muni taka upp slíkt kerfi þannig að fólk þurfi ekki að halda til haga öllum kvittunum og bera sig eftir kostunum. Tæknilega ætti að vera hægt að taka þetta greiðslukerfi í fulla notkun í lok þessa árs eða í síðasta lagi fyrir mitt ár 2008. Mikið hagræði verður af þessu breytta fyrirkomulagi. Ekki síst verður ávinningur fyrir einstaklinga mikil þar sem þeir þurfa þá ekki lengur að halda öllum reikningum sínum til haga og sækja afsláttarkort til Tryggingastofnunar þegar viðmiðunarupphæðinni er náð. Afsláttarkortið væri hægt að senda til viðkomandi þegar hámarksupphæð er náð eða einfaldlega að fletta upp í fjárhagsstöðunni fyrir hvern og einn við komu á heilbrigðisstofnun. Fyrir stofnanir eins og Landspítalann og heilsugæsluna felst hagræðið einkum í því að nú verður fyrir hendi fullvissa um tryggingalega stöðu sjúklings og hægt verður að taka gjald samkvæmt því.

Í þriðja lagi er spurt hvort veitt hafi verið fé til að koma slíku kerfi á og hvað það mundi kosta Tryggingastofnun, Landspítala – háskólasjúkrahús, heilsugæsluna og aðra, og þá hverja.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerir ráð fyrir fjárveitingu til verkefna á sviði upplýsingatæknimála ár hvert til sinna málaflokka. Stofnanirnar hafa kostað þessar breytingar á tölvukerfum sínum innan eigin fjárveitinga og stofnanirnar munu fá umtalsvert hagræði af þessu nýja kerfi. Til dæmis er um talsverðan vinnusparnað að ræða fyrir Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að vinna við útgáfu afsláttarkortanna einfaldast og leiðréttingar vegna rangra greiðslna ættu að minnka verulega. Það er hins vegar ljóst að kostnaður einstakra stofnana við að senda þessar upplýsingar til Tryggingastofnunar er misjafn og fer m.a. eftir því hvaða tölvukerfi er í notkun á hverjum stað. Slíkt verður að sjálfsögðu að meta í hverju tilviki hver sá kostnaður er.