133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rannsóknir á sjófuglum.

254. mál
[15:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Ég hef kynnt mér það að einhverjar rannsóknir hafa farið fram. Þær hafa samt verið frekar gloppóttar. Þó eru teikn á lofti um að menn hyggist taka sér tak í þessum efnum enda er það útbreitt — ég vona að það sé líka þannig hjá ríkisstjórnarflokkunum — að margir hafa áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur undanfarin ár.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra benti á að enn vantar mikið upp á. Ég hefði viljað nota seinni ræðu mína í þessari umræðu til að hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að beita sér fyrir því að rannsóknir á sjófuglum yrðu stórefldar, fuglum sem hafa lífsviðurværi af því sem hafið gefur. Ég held að í gegnum vistfræðirannsóknir megi að mörgu leyti vakta umhverfið og komast að áhugaverðum niðurstöðum sem gætu hjálpað okkur í ákvarðanatöku. Við vitum að lífríkið umhverfis landið hefur verið að breytast. Við vitum að sjórinn hefur verið að hlýna og andrúmsloftið hefur verið að hlýna. Við erum að fara inn í hlýskeið, af hvaða orsökum sem það er. Það er náttúrlega umdeilanlegt þótt margt bendi til þess að þar eigi mannskepnan mikinn og alvarlegan hlut að máli.

Ég hefði viljað gera að tillögu minni að rannsóknir á sjófuglum, til að mynda í Vestmannaeyjum þar sem er mikið af þessum fuglum og að mörgu leyti góðar aðstæður til að stunda rannsóknir, yrðu stórlega efldar, fjölgað stöðugildum og hreinlega byggð upp rannsókna- eða vísindamiðstöð. Ég veit að nú þegar eru þar rannsóknir fyrir en þar yrði byggð upp enn frekar rannsókna- og vísindamiðstöð til umhverfisvöktunar, sérstaklega til rannsókna á lífríkinu með tilliti til vistfræði. Þar koma að sjálfsögðu sjófuglarnir mjög sterkir inn.